Erlent

Loforð gefin fyrir fimm árum svikin

Þrjú HIV-smituð börn á Indlandi Suresh, Gopika og Subiksha heita þessi börn, sem öll eru HIV-smituð og dveljast á munaðarleysingjahæli í Madras á Indlandi. fréttablaðið/ap
Þrjú HIV-smituð börn á Indlandi Suresh, Gopika og Subiksha heita þessi börn, sem öll eru HIV-smituð og dveljast á munaðarleysingjahæli í Madras á Indlandi. fréttablaðið/ap

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði að leiðtogar heimsins hefðu ekki staðið við loforð sem þeir gáfu fyrir fimm árum um að berjast gegn alnæmi. Nú verði þeir að horfast í augu við raunveruleikann og gera sér grein fyrir því að til þess að stöðva útbreiðslu alnæmis verði þeir að vernda þá sem í mestri hættu eru, nefnilega vændiskonur, fíkniefnaneytendur og samkynhneigða.

"Við munum ekki ná árangri með því að stinga höfðinu í sandinn og láta eins og þetta fólk sé ekki til eða að það þurfi ekki á hjálp okkar að halda." Annan sagði þetta við upphaf þriggja daga leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna í New York. Hann vitnaði þar í nýútkomna skýrslu Sameinuðu þjóðanna þar sem fram kemur að hægt hefur á útbreiðslu alnæmis, þótt faraldurinn sé enn alvarlegur.

Meðal þess sem leiðtogarnir deila um er hvort réttlætanlegt sé að minnast sérstaklega á áhættuhópa, sem einkum tengjast vændi, fíkniefnum og samkynhneigð.

Samkvæmt skýrslunni, sem kom út á þriðjudaginn, eru nærri fjörutíu milljónir manna um heim allan smitaðar af HIV-veirunni, sem veldur alnæmi. Flest smit verða nú orðið á Indlandi, en ástandið er þó enn verst í Afríku sunnan Sahara, þar sem dánartíðnin fer enn hækkandi í sumum löndum.

Á leiðtogafundinum í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York er ætlunin að fara yfir stöðuna og athuga hvernig gengið hefur að standa við þau loforð sem gefin voru á svipaðri ráðstefnu, sem haldin var árið 2001.

Einnig er meiningin að horfa fram á við og skipuleggja varnir gegn HIV-veirunni um heim allan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×