Á að styrkja listir? 11. júní 2006 22:02 Það er vinsæl leikfimi ýmissa þrýstihópa að reikna út hvað þjóðfélagið græði mikið á því að ríkisvaldið veiti skattfé til baráttumála þeirra. Oftast eru talsmennirnir svo hryllilega sannfærandi að furðu sætir að fjármálaráðherrann hlaupi ekki til og setji allan sjóðinn í púkkið með þrýstihópunum. Hver kannast til dæmis ekki við eftirfarandi röksemd: Fyrir hverja eina krónu sem ríkið setur í þetta eða hitt verkefnið fær það þrjár til baka. Hví þá ekki að skella öllum sjóðnum á borðið og þrefalda hann án fyrirhafnar? Mér hefur fundist bera á þessari hugsun meðal annars í listageiranum. Listamenn eiga það til að reyna að búa styrkbeiðnum sínum einhvers konar viðskiptalegan búning, að ríkið græði peninga á því að styðja við starfsemi þeirra. Ég ætla ekki að útiloka að slíkt geti átt sér stað, örugglega má finna slík dæmi. En slíkur rökstuðningur nær að mínu mati stutt, hann gæti átt jafnt við um nær alla aðra starfsemi. Með slíkum rökum væri hægt að styðja hugmyndir um hvaða ríkisrekstur sem er, útgerðir, flugfélög, prentsmiðjur, refarækt og plómurækt, svo fátt eitt sé nefnt. Það er alvörumál þegar ríkisvaldið tekur peninga af vinnandi fólki. Rökin fyrir stuðningi ríkisins við listir og menningu þurfa því að vera reist á traustari grunni.Frelsi listamannaSú skoðun er til að ríkið eigi ekki að styrkja lista- og menningarstarfsemi af neinu tagi. Fólkið í landinu á sjálft að ráða í hvaða listir og til hvaða listamanna peningar þess eiga að renna. Margir vinstri menn halda að þessi rök séu sett fram af illa meinandi hægri mönnum sem skilji ekki gildi listarinnar og vilji einungis spara við ríkið útgjöld þannig að hægt sé að lækka skatta á auðmenn. Því fer fjarri og liggur til grundvallar vilji margra hægri manna að tengja beint listamenn og almenning og losa þar með listamennina undan því að þurfa að sækja allt sitt til nefnda og ráða hins opinbera. Engu skiptir hversu gott fólk situr í úthlutunarnefndunum, þar ræður alltaf smekkur fárra og listamennirnir vita að þeir þurfa að finna náð fyrir nefndarmönnunum. Þar með er hætt við að þeir sveigi listsköpun sína að því sem talið er að falli úthlutunarmönnum í geð. Ég tel að ýmislegt sé til í þessari röksemdarfærslu, en ég er ekki sammála þeirri skoðun að ríkisvaldið eigi ekki að styrkja menningar- og listastarfsemi. Forsendur markaðshagkerfisTil þess að frjálst markaðshagkerfi verki þarf margt að koma til. Svo fátt eitt sé nefnt þarf réttarríkið að vera sterkt, mannréttindi varin, eignarréttur virtur, dómstólar virkir og ríkisvaldið heiðarlegt. Kapitalismi án alls þessa verður bæði guðlaus og grimmur, þjónar fáum á kostnað fjöldans. Það er ekki furða að víða um heim hefur ekki tekist að koma á þessu flókna kerfi sem orðið hefur til á löngum tíma hér á vesturlöndum. Flóknast er kannski, að margt af því sem miklu skiptir fyrir markaðinn er þess eðlis að það verður ekki skráð í lög eða fest í reglur. Sameiginleg gildi eins og orðheldni, mannvirðing og umburðarlyndi verða ekki bundin í lagabókstaf nema að litlu leyti. Siðað samfélagFrjálst markaðshagkerfi þrífst illa nema í siðuðu samfélagi og ég tel reyndar að hvorugt geti verið án hins. Væntanlega eru til endalaust margar skilgreiningar á því hvað siðað samfélag er, en ljóst er að það verður aldrei hægt að lögleiða slíkt samfélag. Ég ætla að leyfa mér að hafa þá skoðun að siðað samfélag megi meðal annars marka af því að þar hafi fólk hæfileikann til að setja sig í spor annarra, geti fundið til og glaðst með öðrum og gert sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna á líðan annarra. Slíkt samfélag er temprað, einstaklingurinn er frjáls en um leið finnur hann til skyldu sinnar um að láta sig varða velferð annarra. Birting mennskunnarListin er birtingarmynd mennskunnar, hún er mikilvæg í sjálfri sér og því hægt að rökstyðja að hún sé studd þess vegna. Hún dregur fram og sýnir allt hið besta og versta í manninum, hún eykur skilning á okkur sjálfum og öðrum. Listin eykur því samhygð og samúð í samfélaginu. Menning og listir eru mikilvæg forsenda siðaðs samfélags og þá um leið ein af mikilvægum forsendum frjáls markaðshagkerfis. Ég tel því réttlætanlegt að ríkið styðji við fjölbreytta listastarfsemi í landinu. Það er flókið að framkvæma slíkar styrkveitingar rétt, en ef vel er að verki staðið njóta allir ávaxtanna, ekki einungis þeir sem hafa tök á að mæta á listviðburðina. Siðað samfélag og frjáls markaður er öllum í hag og því réttlætanlegt að við leggjum öll af mörkum með skattgreiðslum okkar. Bakarar og smiðirAf þessu má ljóst vera að viðskiptalífið hefur sérstaklega mikla hagsmuni af því að styðja listalífið í landinu. Sá stuðningur hefur farið vaxandi á liðnum árum og er það vel. Betur má ef duga skal og það er nauðsynlegt fyrir listamenn að hafa í fleiri hús að venda en einungis til ríkisins. Oft hefur verið dregin upp sú mynd að listamenn og viðskiptamenn séu andstæðir pólar og gjarnan heyrir maður annan hópinn tala af skilningsleysi um hinn. Vonandi heyrir slíkt tal brátt sögunni til, báðir eru þessir hópar í sama bátnum. Það er eins og með bakarana og smiðina, við þurfum báða og engin ástæða fyrir þá að dunda sér við að hnýta hver öðrum hengingarólar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Illugi Gunnarsson Skoðanir Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Það er vinsæl leikfimi ýmissa þrýstihópa að reikna út hvað þjóðfélagið græði mikið á því að ríkisvaldið veiti skattfé til baráttumála þeirra. Oftast eru talsmennirnir svo hryllilega sannfærandi að furðu sætir að fjármálaráðherrann hlaupi ekki til og setji allan sjóðinn í púkkið með þrýstihópunum. Hver kannast til dæmis ekki við eftirfarandi röksemd: Fyrir hverja eina krónu sem ríkið setur í þetta eða hitt verkefnið fær það þrjár til baka. Hví þá ekki að skella öllum sjóðnum á borðið og þrefalda hann án fyrirhafnar? Mér hefur fundist bera á þessari hugsun meðal annars í listageiranum. Listamenn eiga það til að reyna að búa styrkbeiðnum sínum einhvers konar viðskiptalegan búning, að ríkið græði peninga á því að styðja við starfsemi þeirra. Ég ætla ekki að útiloka að slíkt geti átt sér stað, örugglega má finna slík dæmi. En slíkur rökstuðningur nær að mínu mati stutt, hann gæti átt jafnt við um nær alla aðra starfsemi. Með slíkum rökum væri hægt að styðja hugmyndir um hvaða ríkisrekstur sem er, útgerðir, flugfélög, prentsmiðjur, refarækt og plómurækt, svo fátt eitt sé nefnt. Það er alvörumál þegar ríkisvaldið tekur peninga af vinnandi fólki. Rökin fyrir stuðningi ríkisins við listir og menningu þurfa því að vera reist á traustari grunni.Frelsi listamannaSú skoðun er til að ríkið eigi ekki að styrkja lista- og menningarstarfsemi af neinu tagi. Fólkið í landinu á sjálft að ráða í hvaða listir og til hvaða listamanna peningar þess eiga að renna. Margir vinstri menn halda að þessi rök séu sett fram af illa meinandi hægri mönnum sem skilji ekki gildi listarinnar og vilji einungis spara við ríkið útgjöld þannig að hægt sé að lækka skatta á auðmenn. Því fer fjarri og liggur til grundvallar vilji margra hægri manna að tengja beint listamenn og almenning og losa þar með listamennina undan því að þurfa að sækja allt sitt til nefnda og ráða hins opinbera. Engu skiptir hversu gott fólk situr í úthlutunarnefndunum, þar ræður alltaf smekkur fárra og listamennirnir vita að þeir þurfa að finna náð fyrir nefndarmönnunum. Þar með er hætt við að þeir sveigi listsköpun sína að því sem talið er að falli úthlutunarmönnum í geð. Ég tel að ýmislegt sé til í þessari röksemdarfærslu, en ég er ekki sammála þeirri skoðun að ríkisvaldið eigi ekki að styrkja menningar- og listastarfsemi. Forsendur markaðshagkerfisTil þess að frjálst markaðshagkerfi verki þarf margt að koma til. Svo fátt eitt sé nefnt þarf réttarríkið að vera sterkt, mannréttindi varin, eignarréttur virtur, dómstólar virkir og ríkisvaldið heiðarlegt. Kapitalismi án alls þessa verður bæði guðlaus og grimmur, þjónar fáum á kostnað fjöldans. Það er ekki furða að víða um heim hefur ekki tekist að koma á þessu flókna kerfi sem orðið hefur til á löngum tíma hér á vesturlöndum. Flóknast er kannski, að margt af því sem miklu skiptir fyrir markaðinn er þess eðlis að það verður ekki skráð í lög eða fest í reglur. Sameiginleg gildi eins og orðheldni, mannvirðing og umburðarlyndi verða ekki bundin í lagabókstaf nema að litlu leyti. Siðað samfélagFrjálst markaðshagkerfi þrífst illa nema í siðuðu samfélagi og ég tel reyndar að hvorugt geti verið án hins. Væntanlega eru til endalaust margar skilgreiningar á því hvað siðað samfélag er, en ljóst er að það verður aldrei hægt að lögleiða slíkt samfélag. Ég ætla að leyfa mér að hafa þá skoðun að siðað samfélag megi meðal annars marka af því að þar hafi fólk hæfileikann til að setja sig í spor annarra, geti fundið til og glaðst með öðrum og gert sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna á líðan annarra. Slíkt samfélag er temprað, einstaklingurinn er frjáls en um leið finnur hann til skyldu sinnar um að láta sig varða velferð annarra. Birting mennskunnarListin er birtingarmynd mennskunnar, hún er mikilvæg í sjálfri sér og því hægt að rökstyðja að hún sé studd þess vegna. Hún dregur fram og sýnir allt hið besta og versta í manninum, hún eykur skilning á okkur sjálfum og öðrum. Listin eykur því samhygð og samúð í samfélaginu. Menning og listir eru mikilvæg forsenda siðaðs samfélags og þá um leið ein af mikilvægum forsendum frjáls markaðshagkerfis. Ég tel því réttlætanlegt að ríkið styðji við fjölbreytta listastarfsemi í landinu. Það er flókið að framkvæma slíkar styrkveitingar rétt, en ef vel er að verki staðið njóta allir ávaxtanna, ekki einungis þeir sem hafa tök á að mæta á listviðburðina. Siðað samfélag og frjáls markaður er öllum í hag og því réttlætanlegt að við leggjum öll af mörkum með skattgreiðslum okkar. Bakarar og smiðirAf þessu má ljóst vera að viðskiptalífið hefur sérstaklega mikla hagsmuni af því að styðja listalífið í landinu. Sá stuðningur hefur farið vaxandi á liðnum árum og er það vel. Betur má ef duga skal og það er nauðsynlegt fyrir listamenn að hafa í fleiri hús að venda en einungis til ríkisins. Oft hefur verið dregin upp sú mynd að listamenn og viðskiptamenn séu andstæðir pólar og gjarnan heyrir maður annan hópinn tala af skilningsleysi um hinn. Vonandi heyrir slíkt tal brátt sögunni til, báðir eru þessir hópar í sama bátnum. Það er eins og með bakarana og smiðina, við þurfum báða og engin ástæða fyrir þá að dunda sér við að hnýta hver öðrum hengingarólar.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun