Fastir pennar

Naflaskoðun blaðamanna

Stundum hefur manni sýnst að íslenskir fjölmiðlar séu á góðri leið með að verða sjálfbærir í fréttum. Það er að segja, að einn daginn verði lítið annað skrifað eða sagt í fjölmiðlum en fréttir af öðrum fjölmiðlum og af fólki sem vinnur við fjölmiðla.

Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við þennan sjálfhverfa áhuga okkar fjölmiðlafólks. Við erum ekkert öðruvísi en aðrar starfsstéttir sem vilja fylgjast vel með því sem er á seyði innan síns fags. Nema hvað í okkar tilviki sendum við fréttir byggðar á þessari sjálfhverfni inn á öll heimili landsins. Aðrar stéttir hafa ekki sama tækifæri til að þröngva sambærilegum áhuga sínum upp á þjóðina.

Í þessu ljósi er hollt fyrir lesendur og áhorfendur að skoða fréttir fjölmiðla af öðrum fjölmiðlum. Smæstu innansveitarkróníkur eiga það til að vinda stórfenglega upp á sig og fá pláss og vægi á síðum blaðanna og í útsendingum ljósvakamiðlanna, sem er langt um fram tilefni, aðeins vegna þess að fjölmiðlafólk virðist halda að aðrir deili miklum áhuga þess á fjölmiðlum. Þannig má telja nokkuð víst að framboðið af þessu efni sé í raun langt umfram eftirspurn.

Að þessu sögðu er þó ekki hægt annað en að draga örlítið í land, því staðreyndin er sú að það er svo sannarlega ákveðin eftirspurn eftir fréttum af sumu fólki sem vinnur við fjölmiðla.

Þetta eru fréttir af fólkinu sem talar til landsmanna á hverjum degi af sjónvarpsskjánum. Þulur sem brosa til okkar, ábúðarfullir fréttamenn, grínararnir sem gera sig óhikað að fífli fyrir áhorfendur, þau sem segja okkur tíðindi af veðri og umsjónarfólkið sem stendur fyrir kvöldvökum í sjónvarpssal um helgar, allt er þetta fólk sem með reglulegum heimsóknum inn í stofur landsins er á vissan hátt komið í hóp heimilisvina.

Og á sama hátt og fólk vill fá fréttir af öðrum vinum og kunningjum hlustar það á, og les af athygli, fréttir af vinum sínum og kunningjum af skjánum. Þannig er fullkomlega eðlilegt þegar fjölmiðlar segja fréttir á borð við að þekkt sjónvarpspar eigi von á barni og keppast svo við að birta fyrstu myndir af ungviðinu, eða þegar sýnt er frá glæsilegum sumarbústað sem glaðlynda þulan hefur verið að innrétta um árabil. Það er ekki nema sjálfsögð kurteisi fjölmiðla að verða við eftirspurninni eftir slíkum fréttum og engin ástæða til að gera lítið úr þeim sem sinna þeirri eftirspurn.

Allt er þetta samt spurning um jafnvægi og það er sígilt viðfangsefni fjölmiðlafólks að varast að gleyma sér ekki um of við að stara í spegilinn.








×