Erlent

Gróðurhúsaáhrifin af mannavöldum

Bandaríkjaþing Formaður vísindanefndar þingsins óskaði eftir skýrslunni til að svara þingmönnum sem telja gróðurhúsaáhrifin ekki vera mikla vá.
Bandaríkjaþing Formaður vísindanefndar þingsins óskaði eftir skýrslunni til að svara þingmönnum sem telja gróðurhúsaáhrifin ekki vera mikla vá. MYND/AFP

Bandaríska vísindaakademían kynnti fyrir skemmstu niðurstöður viðamikillar rannsóknar sem Bandaríkjaþing hafði óskað eftir, sem sýna að hitinn á jörðinni hefur ekki verið hærri í að minnsta kosti tvö þúsund ár. Hlýnunin undanfarna áratugi á sér engin söguleg fordæmi seinasta árþúsund, að því er fram kemur í niðurstöðunum.

Repúblikaninn Sherwood Boehlert, sem er formaður vísindanefndar fulltrúadeildar þingsins, hafði óskað eftir rannsókninni til að svara þeim þingmönnum sem telja gróðurhúsaáhrifin ekki vera alvarlega ógn. Það er ekkert í þessari skýrslu sem ætti að vekja vafa um að vísindamenn eru sammála um að loftslag fari hlýnandi á jörðinni, sagði Boehlert.

Vísindamennirnir sáu skýr merki þess að losun koltvíoxíðs og metans hefði aukist snarlega frá upphafi 20. aldarinnar, eftir að hafa verið stöðug í um tólf þúsund ár. Þar til um miðja 19. öldina hafði losun gróðurhúsalofttegunda verið að mestu vegna eldgosa og annarra náttúrulegra orsaka, en þær voru smávægilegar miðað við þær sem valda þeim í dag.

Meðal gagna sem rannsóknin byggir á eru greiningar á borkjörnum, neikvæður jöklabúskapur og önnur sönnunargögn sem finna má í náttúrunni.

Ríkisstjórn George W. Bush Bandaríkjaforseta hefur lagst gegn nýjum mengunarvörnum og heldur því fram að þær myndu valda því að fimm milljónir Bandaríkjamanna misstu vinnuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×