Erlent

Stefndi í hörð átök

Ísraelskir skriðdrekar Ísraelskir skriðdrekar þustu að Gaza-svæðinu í gær.
Ísraelskir skriðdrekar Ísraelskir skriðdrekar þustu að Gaza-svæðinu í gær. MYND/Nordicphotos/afp

Palestínumenn bjuggu sig undir innrás Ísraelsmanna á Gaza-svæðið í gærkvöldi og var vegum við landamærin lokað með jarðhleðslum og gaddavír. Ísraelsher hefur með öllu lokað landamærunum og Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, hefur samþykkt drög að gríðarstórri hernaðaraðgerð inn á Gazasvæðið. Um þrjú þúsund ísraelskir hermenn voru við landamærin í gær, ásamt fjölda skriðdreka og vopnaðra herbíla.

Egypsk stjórnvöld hafa einnig brugðist við ástandinu með hervæðingu sinna landamæra, en þangað voru sendir um 2.500 hermenn í gær til að hindra straum væntanlegra flóttamanna frá Gaza-svæðinu. Hundruð Palestínumanna eru nú þegar föst Egyptalandsmegin landamæranna.

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hvatti Ísraelsmenn til að reyna samningaleiðina til þrautar, en alþjóðlegir sáttasemjarar voru vonlitlir í gærkvöldi. Var því búist við að vopnuð átök brytust út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×