Erlent

Fangaréttarhöld eru lögleysa

Fangar í Guantanamo Réttarhöldin yfir þeim brjóta í bága við bæði bandarísk herlög og Genfarsáttmálana.
Fangar í Guantanamo Réttarhöldin yfir þeim brjóta í bága við bæði bandarísk herlög og Genfarsáttmálana. MYND/AP

Hæstiréttur Bandaríkjanna komst í gær að þeirri niðurstöðu að stríðsglæparéttarhöld yfir föngum sem hafa verið í haldi í bandarískum fangabúðum á Kúbu, brjóti bæði í bága við bandarísk herlög og Genfarsáttmálana.

Dómstóllinn segir að George W. Bush Bandaríkjaforseti hafi ekki haft neina lagalega heimild til þess að setja á stofn sérstaka herdómstóla til þess að rétta yfir mönnunum.

Bush sagðist í gær ætla að leita eftir samþykki Bandaríkjaþings um að þessir fangar verði dregnir fyrir hefðbundna herdómstóla, og vonast til þess að það fyrirkomulag hljóti náð fyrir augum hæstaréttar.

Fyrir tveimur árum komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að bandarísk stjórnvöld hefðu enga heimild til þess að hneppa grunaða hryðjuverkamenn í fangelsi og halda þeim þar ótímabundið án þess að þeir kæmu fyrir dómara eða hefðu aðgang að lögmanni.

Nú kemst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu, að þau réttarhöld sem haldin hafa verið yfir sumum fanganna hafi ekki haft neina lagalega stoð.

Í úrskurði dómstólsins segir þó ekkert um það hvort loka eigi fangabúðunum, heldur varðar úrskurðurinn aðeins ólögmæti réttarhaldanna yfir föngunum. Dómararnir í Hæstarétti voru ekki á einu máli um niðurstöðuna í gær. Fimm þeirra standa að henni, en þrír eru á móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×