Erlent

Heillavænleg langtímaáhrif

Berserkjasveppur Þessi sveppur flokkast til eitraðra sveppa og er því afar varhugaverður til átu.
Berserkjasveppur Þessi sveppur flokkast til eitraðra sveppa og er því afar varhugaverður til átu. MYND/Nordicphotos/afp

Niðurstöður rannsóknar sem vísindamenn við John Hopkins-háskólann í Baltimore gerðu á áhrifum ofskynjunarsveppa á menn hafa komið þeim í opna skjöldu.

Fólkið innbyrti psilocybin, sem er virka ofskynjunarefnið í sveppunum, og lýsti síðan reynslu sinni. Margir þátttakenda lýstu djúpstæðri dulrænni reynslu sem væri ein sú merkilegasta sem þeir hefðu á ævinni kynnst.

Sumir líktu henni við að missa foreldri eða að eignast barn. Þriðjungur þátttakenda varð óttasleginn og segja vísindamennirnir það til marks um hversu hættulegt sé að fikta við ofskynjunarlyf, en tilraunin var meðal annars gerð til að leita ráða við kvíðaköstum og þunglyndi og til að kanna valkosti í afeitrun fíkla.

Það kom ekki á óvart að þátttakendur lýstu dulrænum áhrifum, því psilocybin hefur verið notað af ýmsum þjóðflokkum við trúarathafnir í aldanna rás. Það sem vakti furðu var að flestir þátttakenda lýstu heillavænlegum langtímaáhrifum lyfsins; tveimur mánuðum eftir tilraunina sögðust þeir vera góðhjartaðri, ástríkari, bjartsýnni og þolinmóðari.

Áttatíu prósent þátttakenda sögðu að lífsánægja þeirra væri "nokkuð" eða "talsvert" meiri en fyrir tilraunina.

Þetta er ein af örfáum vísindalegum tilraunum sem hafa verið gerðar með psilocybin síðan á sjöunda áratugnum, en þá minnkaði áhugi vísindastofnana á lyfinu í kjölfar slæmrar umræðu vegna misnotkunar ungmenna á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×