Erlent

Hefur kært Dick Cheney fyrir að leka til fjölmiðla

Joseph Wilson og Valerie Plame Sendiherrahjónin fyrrverandi segja bandaríska ráðamenn hafa stofnað lífi þeirra í hættu með því að leka til fjölmiðla að hún væri njósnari á vegum CIA.
Joseph Wilson og Valerie Plame Sendiherrahjónin fyrrverandi segja bandaríska ráðamenn hafa stofnað lífi þeirra í hættu með því að leka til fjölmiðla að hún væri njósnari á vegum CIA. MYND/AP

 Valerie Plame, fyrrverandi njósnari hjá bandarísku leyniþjónustunni CIA, hefur lagt fram kæru á Dick Cheney, varaforseta Bandaríkjanna, Karl Rove, ráðgjafa Bandaríkjaforseta, og fleiri embættismenn Hvíta hússins í Washington. Hún sakar þá um að hafa skipulagt hvíslherferð með það að markmiði að eyðileggja feril hennar hjá leyniþjónustunni.

Hún heldur því fram í kærunni að Cheney, Rove og I. Lewis Libby, sem er fyrrverandi starfsmannastjóri Hvíta hússins, hafi lekið því til fjölmiðla að hún væri njósnari hjá CIA gagngert til þess að refsa eiginmanni hennar, Joseph Wilson, sem er fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna, fyrir það að hann sagði Bandaríkjastjórn hafa ýkt hættuna af Íraksstjórn til þess að réttlæta innrásina í Írak.

Wilson hafði ferðast til Níger í Afríku og komist þar að raun um að líklega væri ekkert hæft í ásökunum Bush Bandaríkjaforseta um að Saddam Hussein hafi ætlað að útvega sér úran frá Afríku.

Opinberlega var fyrst ljóstrað upp um að Plame væri njósnari í júlí árið 2003 í grein sem pistlahöfundurinn Robert Novak skrifaði. Novak hefur upplýst hann hafi á sínum tíma fengið staðfestingu fyrir því að Plame væri njósnari bæði hjá Karl Rove og Bill Harlow, upplýsingafulltrúa CIA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×