Styrinn um strætó 22. júlí 2006 00:01 Mikill styr hefur staðið um Strætó bs. síðan nýtt leiðakerfi var tekið upp fyrir um ári. Sitt sýnist hverjum um breytingarnar og í það minnsta hefur meira heyrst í þeim sem óánægðir eru með breytingarnar en hinum sem telja þær til bóta. Ljóst er að löngu var orðið tímabært að endurskoða leiðakerfi strætisvagnanna, sem byggði í upphafi á innan við tíu leiðum í miklu minni og allt öðruvísi borg en þeirri sem við þekkjum nú. Við þetta kerfi hafði verið prjónað áratugum saman, auk þess sem nágrannasveitarfélögin ráku sínar eigin leiðir frá Reykjavík. Hitt er annað mál að ekki virðist hafa tekist eins vel og skyldi að byggja upp alveg nýtt kerfi og hugsanlegt er að hreinlega hafi ekki verið gengið nógu langt í að endurhugsa kerfið algerlega frá grunni. Þegar breyttu kerfi fylgir þjónustuskerðing, bæði í gisnara neti og strjálari ferðum, er vitanlega ekki von að vel gangi. Grundvallarforsenda þess að almenningssamgöngur séu raunhæfur kostur fyrir þann stóra hóp fólks sem á val um að ferðast í eigin bíl, og til þess hóps verður að ná til þess að raunhæft sé að farþegafjöldi nemi einhverju, er að fljótt og vel gangi að komast á milli staða. Viðbrögðin við fækkun farþega hafa hins vegar til þessa verið í þá veru að draga úr þjónustu í stað þess að bæta hana til að gera valkostinn fýsilegri. Svo virðist sem stofnun og rekstur Strætó bs. hafi ekki tekist sem skyldi. Hvort sem ákveðið verður að leysa það félag upp eða ekki verða almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu að virka sem ein heild, annað hlýtur að skila enn verri þjónustu en þeirri sem nú er. Einkabílar hér á landi eru fleiri en þekkist víðast hvar á byggðu bóli og fjölgun þeirra undanfarin ár hefur verið gríðarleg. Þetta kallar á dýra mannvirkjagerð, bæði til að bera þennan bílaflaum og geyma þá meðan þeir eru ekki í notkun. Auk þess er mengun af völdum útblásturs meiri í Reykjavík en í mörgum milljónaborgum. Góðar almenningssamgöngur eru því ekki eingöngu umhverfisvænni en óhófleg notkun einkabíla, heldur áreiðanlega þjóðhagslega hagkvæmari en að neyða fólk til að fara allra sinna ferða á einkabílum, eigi það þess kost, og skilja hina sem ekki eiga þess kost eftir með þjónustu sem ekki stendur undir nafni. Ljóst er að sveitarstjórnir höfuðborgarsvæðisins þurfa að taka pólítíska ákvörðun um það hvort þau hyggist reka almenningssamgöngur með reisn eða ekki. Ef niðurstaðan er sú að við ætlum að halda úti slíku kerfi, eins og tíðkast á þeim menningarsvæðum sem við berum okkur saman við, þá verður það kerfi að standa undir nafni. Það kostar peninga að reka almenningssamgöngur og í litlu samfélagi eins og hér er verður að teljast ólíklegt að hægt sé að reka slíkt kerfi með hagnaði. Ef niðurstaðan er sú að rekstur almenningssamgangna sé sveitarfélögunum um megn er hugsanlegt að endurskoða verði að einhverju leyti tekjustofna þeirra til þess að gera þeim kleift að reka þessar samgöngur. Að minnsta kosti er ljóst að ef ekkert verður að gert munu almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu smám saman fjara út. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Skoðanir Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Framúrskarandi þjónusta byggir upp traust á fyrirtækjum Ingibjörg Valdimarsdóttir Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Í aðdraganda jóla – hugleiðing Unnur Hrefna Jóhannsdóttir Skoðun Athugasemdir við eignaumsýslu Landsbanka Íslands Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Skúffuskýrslan sem lifði af Linda Heiðarsdóttir Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun
Mikill styr hefur staðið um Strætó bs. síðan nýtt leiðakerfi var tekið upp fyrir um ári. Sitt sýnist hverjum um breytingarnar og í það minnsta hefur meira heyrst í þeim sem óánægðir eru með breytingarnar en hinum sem telja þær til bóta. Ljóst er að löngu var orðið tímabært að endurskoða leiðakerfi strætisvagnanna, sem byggði í upphafi á innan við tíu leiðum í miklu minni og allt öðruvísi borg en þeirri sem við þekkjum nú. Við þetta kerfi hafði verið prjónað áratugum saman, auk þess sem nágrannasveitarfélögin ráku sínar eigin leiðir frá Reykjavík. Hitt er annað mál að ekki virðist hafa tekist eins vel og skyldi að byggja upp alveg nýtt kerfi og hugsanlegt er að hreinlega hafi ekki verið gengið nógu langt í að endurhugsa kerfið algerlega frá grunni. Þegar breyttu kerfi fylgir þjónustuskerðing, bæði í gisnara neti og strjálari ferðum, er vitanlega ekki von að vel gangi. Grundvallarforsenda þess að almenningssamgöngur séu raunhæfur kostur fyrir þann stóra hóp fólks sem á val um að ferðast í eigin bíl, og til þess hóps verður að ná til þess að raunhæft sé að farþegafjöldi nemi einhverju, er að fljótt og vel gangi að komast á milli staða. Viðbrögðin við fækkun farþega hafa hins vegar til þessa verið í þá veru að draga úr þjónustu í stað þess að bæta hana til að gera valkostinn fýsilegri. Svo virðist sem stofnun og rekstur Strætó bs. hafi ekki tekist sem skyldi. Hvort sem ákveðið verður að leysa það félag upp eða ekki verða almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu að virka sem ein heild, annað hlýtur að skila enn verri þjónustu en þeirri sem nú er. Einkabílar hér á landi eru fleiri en þekkist víðast hvar á byggðu bóli og fjölgun þeirra undanfarin ár hefur verið gríðarleg. Þetta kallar á dýra mannvirkjagerð, bæði til að bera þennan bílaflaum og geyma þá meðan þeir eru ekki í notkun. Auk þess er mengun af völdum útblásturs meiri í Reykjavík en í mörgum milljónaborgum. Góðar almenningssamgöngur eru því ekki eingöngu umhverfisvænni en óhófleg notkun einkabíla, heldur áreiðanlega þjóðhagslega hagkvæmari en að neyða fólk til að fara allra sinna ferða á einkabílum, eigi það þess kost, og skilja hina sem ekki eiga þess kost eftir með þjónustu sem ekki stendur undir nafni. Ljóst er að sveitarstjórnir höfuðborgarsvæðisins þurfa að taka pólítíska ákvörðun um það hvort þau hyggist reka almenningssamgöngur með reisn eða ekki. Ef niðurstaðan er sú að við ætlum að halda úti slíku kerfi, eins og tíðkast á þeim menningarsvæðum sem við berum okkur saman við, þá verður það kerfi að standa undir nafni. Það kostar peninga að reka almenningssamgöngur og í litlu samfélagi eins og hér er verður að teljast ólíklegt að hægt sé að reka slíkt kerfi með hagnaði. Ef niðurstaðan er sú að rekstur almenningssamgangna sé sveitarfélögunum um megn er hugsanlegt að endurskoða verði að einhverju leyti tekjustofna þeirra til þess að gera þeim kleift að reka þessar samgöngur. Að minnsta kosti er ljóst að ef ekkert verður að gert munu almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu smám saman fjara út.