Erlent

Vopnahléstillögu hafnað

hart barist í líbanon Hátt í þrjátíu manns létust í árásum Ísraelshers austur af Tyre í Suður-Líbanon í gærmorgun. Ellefu létust í loftárásum á Suður-Beirút og þrír létust og þrjátíu særðust í árásum Hizbollah á Haifa í Norður-Ísrael.
hart barist í líbanon Hátt í þrjátíu manns létust í árásum Ísraelshers austur af Tyre í Suður-Líbanon í gærmorgun. Ellefu létust í loftárásum á Suður-Beirút og þrír létust og þrjátíu særðust í árásum Hizbollah á Haifa í Norður-Ísrael. MYND/AP

Líbanar höfnuðu tillögum Frakka og Bandaríkjamanna um vopnahlésályktun sem lögð var fram um helgina. Ísraelskir embættismenn voru almennt ánægðir með ályktunina þar sem hún heimilar Ísraelsher að beita hernum í varnaðarskyni.

Vopnahlésályktunin er nú til umræðu hjá Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Sendinefnd frá arabaríkjunum lagði af stað til New York í gærkvöldi með það að markmiði að framfylgja kröfum Líbana um breytta ályktun. Helsta krafa Líbana er að Ísraelar dragi allt herlið sitt til baka. Líbanar eru tilbúnir að senda fimmtán þúsund hermenn til Suður-Líbanon, dragi Ísraelar herlið sitt til baka. Enn fremur eru Líbanar tilbúnir að þiggja hjálp Sameinuðu þjóðanna til að koma á friði.

Í dag munu nokkrir utanríkisráðherrar, þar á meðal Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hittast í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York til að ræða átökin í Mið-Austurlöndum. Haft er eftir Rice að vopnahlésályktunin sé aðeins fyrsta skrefið í átt að friði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×