Erlent

Ekki þjóðinni til framdráttar

Tony Blair Þrýst á forsætisráðherrann að hann segi af sér, eða í það minnsta tilkynni um hvenær hann ætli að hætta.
Tony Blair Þrýst á forsætisráðherrann að hann segi af sér, eða í það minnsta tilkynni um hvenær hann ætli að hætta. MYND/NORDICPHOTOS/AFP

Sjö embættismenn ríkisstjórnar Tony Blairs sögðu upp störfum í gær í mótmælaskyni við tregðu hans við að tilkynna hvenær hann ætli að láta af embætti. Einn embættismannanna er Tom Watson, en hann var meðal undirritaðra á hvatningarskjali sem lekið var til fjölmiðla í fyrradag. Á skjalið settu 38 þingmenn Verkamannaflokksins nafn sitt undir beiðni til Blairs um að segja af sér, fyrr en seinna.

„Ég tel ekki lengur að áframhaldandi seta þín í embætti sé flokknum eða landinu til framdráttar,“ sagði Watson í uppsagnarbréfi sínu í gær. Blair sagði seinna að hann hefði rekið Watson sjálfur, ef aðstoðarráðherrann hefði ekki verið fyrri til að segja af sér, enda hefði ákvörðun Watsons um að skrifa undir verið „sviksamleg og ósvífin“.

Miklar vangaveltur eru uppi í Bretlandi um hvenær Blair tilkynni um afsögn sína og í gær birti til dæmis dagblaðið Sun frétt þess efnis að forsætisráðherrann myndi segja af sér þann 31. maí, en blaðið gat ekki um heimildir og skrifstofa forsætisráðuneytisins vildi ekkert um fréttina segja.

Tony Blair lýsti því yfir í kosningabaráttunni síðustu að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri árið 2009, heldur segja af sér á kjörtímabilinu. Hann kvað þó ekki fastar að orði en svo að segja að eftirmaður sinn fengi „tíma“ til að koma sér fyrir í embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×