Erlent

Sjálfsmorðssprenging í Kabúl

Skömmu eftir sprenginguna. 
Sprengingin var svo öflug að tveggja metra víður gígur myndaðist í götunni. Minnst sautján létu lífið og þrjátíu særðust.
Skömmu eftir sprenginguna. Sprengingin var svo öflug að tveggja metra víður gígur myndaðist í götunni. Minnst sautján létu lífið og þrjátíu særðust. MYND/AP

Ökumaður keyrði að bílalest hermanna í íbúðahverfi í Kabúl í gær og sprengdi sjálfan sig í loft upp með þeim afleiðingum að minnst sextán aðrir létu lífið og 29 særðust. Þetta er skæðasta sjálfsmorðsárás í Kabúl síðan talibönum var komið frá völdum árið 2001. Hershöfðingi Breta í Afganistan sagði í gær að átökin í landinu væru orðin ofsafengnari en í Írak.

Sprengingin var svo öflug að tveggja metra víður gígur myndaðist þar sem Toyota-bifreið árásarmannsins stóð. Tætlur einkennisbúninga og brot úr bílum þeyttust upp í tré sem standa meðfram götunni og kviknaði í þeim. Sprengjubrot urðu gangandi vegfarendum að bana og sprengingin braut rúður húsa á stóru svæði í miðbænum. Hundrað metra hár reykstrókur stóð yfir árásarstaðnum.

Fjórar aðrar sprengjur fundust í gær við skólabyggingu í Kabúl, en þær voru aftengdar og gerðar óskaðlegar.

Í ljósi ótryggs ástands í Afganistan voru aðildarþjóðir NATO hvattar til að senda fleiri hermenn til landsins á NATO-fundi í Varsjá í gær og er stefnt á að senda þangað 2.000-2.500 menn til viðbótar.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hefur verið hringt í alla Íslendingana sem eru við friðargæslustörf í Kabúl og eru þeir heilir á húfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×