Erlent

Herstjórnin herðir tökin

Vinsælt valdarán Almennir borgarar í Taílandi létu í gær margir hverjir taka mynd af sér fyrir framan skriðdreka og hermenn í Bangkok.
Vinsælt valdarán Almennir borgarar í Taílandi létu í gær margir hverjir taka mynd af sér fyrir framan skriðdreka og hermenn í Bangkok. MYND/AP

Leiðtogar stjórnarbyltingarinnar í Taílandi hafa lagt strangar hömlur á alla stjórnmálastarfsemi í landinu. Þeir hafa tekið sér löggjafarvald, bannað starfsemi stjórnmálaflokka og fjórir af nánustu samstarfsmönnum Thaksins Shinawatras hafa verið hnepptir í varðhald.

Sjálfur dvelst forsætisráðherrann fyrrverandi í London þar sem dóttir hans er við nám. Hann sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann sagðist ætla að taka sér verðskuldaða hvíld. Hann hvatti líka herinn til þess að efna sem fyrst til lýðræðislegra kosninga í landinu.

Gagnrýnendur Thaksins segja nauðsynlegt að sem fyrst verði gerð rannsókn á þeirri spillingu, sem hann er sakaður um.

Stjórnmálaskýrendur segja ennfremur að herstjórnin verði að færa sönnur á þessa spillingu til þess að geta réttlætt valdaránið.

Nokkrar vonir eru bundnar við að leiðtogi stjórnarbyltingarinnar, Sondhi Boonyaratkalin herforingi, sem sjálfur er múslimi, eigi auðveldara með að leysa deilur við múslima í suðurhluta Taílands, þar sem uppreisnarbarátta þeirra hefur kostað 1700 manns lífið á síðustu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×