Erlent

Bandaríkin hótuðu árás

forseti Pakistans Musharraf hitti George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, í Hvíta húsinu í gær.
forseti Pakistans Musharraf hitti George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, í Hvíta húsinu í gær. MYND/AP

Pervez Musharraf, forseti Pakistans, hitti George W. Bush að máli í gær í Hvíta húsinu. Heimsóknin komst í hámæli vegna ummæla sem Musharraf lét falla í viðtali í þættinum 60 Minutes á CBS fyrir fundinn; að Bandaríkjamenn hefðu hótað að „sprengja Pakistan aftur á steinöld“ ef ríkið fylkti ekki liði í „stríðinu gegn hryðjuverkum“.

Yfirmaður leyniþjónustu Pakistana segir að Richard Armitage, þáverandi aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi hótað sér þessu í samtali stuttu eftir árásina á Tvíburaturnana 11. september árið 2001. Einnig á Armitage að hafa farið fram á að pakistönsk stjórnvöld kæmu í veg fyrir að almenningur í landinu sýndi opinberlega stuðning við téða árás.

Armitage neitar ásökunum, en játar að hafa verið harðorður; að ríkisstjórnin í Pakistan þyrfti að ákveða hvort hún væri „með eða á móti“ Bandaríkjunum.

Dan Bartlett, ráðgjafi Hvíta hússins, sagðist ekki vita nákvæmlega hvað Armitage hefði sagt við pakistanska ráðamenn, en það lægi fyrir að eftir árásirnar hefði forseti Pakistans verið krafinn svara af Bandaríkjamönnum um „hvort hann stæði með hinum siðmenntaða heimi eða talíbönum og al-Kaída“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×