Manfred Novak, sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna á sviði ómannúðlegrar meðferðar fanga, segir að pyntingar á föngum hafi versnað til muna í Írak, eftir að Saddam Hussein var komið frá völdum. Áður hafi ákveðin regla verið á hlutunum en nú vaði uppi öryggissveitir, herskáar einkahersveitir og ýmsir hatursmenn hernámsins. Novak segir ástandið í Írak farið gjörsamlega úr böndunum.
Mannréttindanefnd SÞ í Írak skýrði nýlega frá því í skýrslu að ekki væri óalgengt að finna merki ógeðfelldra misþyrminga á líkum í líkhúsinu í Bagdad.