Erlent

Frumbyggjarnir eiga borgina

Dansarar. Nyoongar-ættbálksins á góðri stundu Frumbyggjar Ástralíu hafa mátt þola ýmsa niðurlægingu um árin. Þeir fagna að vonum nýjum úrskurði alríkisdómstólsins.
Dansarar. Nyoongar-ættbálksins á góðri stundu Frumbyggjar Ástralíu hafa mátt þola ýmsa niðurlægingu um árin. Þeir fagna að vonum nýjum úrskurði alríkisdómstólsins.

Alríkisdómstóll Ástralíu hefur komist að þeirri niðurstöðu að Nyoongar-ættbálkurinn sé eigandi landsvæðis Perth-borgar. Þetta er í fyrsta skipti sem frumbyggjum er tryggður eignarréttur á þéttbýlissvæði, að sögn áströlsku fréttastofunnar ABC. Eignar­rétturinn nær þó ekki til lands sem byggt er á.

John Howard, forsætisráðherra Ástralíu, lýsti yfir verulegum áhyggjum af úrskurðinum, enda gæti hann haft fordæmisgildi um landsvæði borganna Melbourne og Sydney ásamt fleirum. Philip Ruddock, ríkissaksóknari Ástralíu, lýsti einnig áhyggjum sínum og sagði að úrskurðurinn þýddi að frumbyggjar gætu meinað öðru fólki að sækja almenningsgarða, strandsvæði og önnur óbyggð svæði.

Talsmenn frumbyggja hafa reynt að róa hvíta meirihlutann og segjast engan áhuga hafa á að reka fólk úr görðum sínum eða úr borgunum, ættbálkurinn sækist fyrst og fremst eftir viðurkenningu á réttindum sínum. Ein rök sem dómurinn telur til er að Nyoongar-menn hafi í áranna rás ræktað siði sína og hefðir og tilheyri því sannarlega hinum upphaflega ættbálki sem á svæðinu bjó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×