Erlent

Fimm fórust er brú hrundi

Leitað að fólki. Björgunarmenn leita að fólki í brakinu.
Leitað að fólki. Björgunarmenn leita að fólki í brakinu.

Minnst fimm manns fórust þegar tæplega tuttugu metra langur hluti brúar á mislægum gatnamótum hrundi í Montréal í Kanada á laugardag. Sex manns liggja á sjúkrahúsi og eru tveir alvarlega slasaðir.

Að sögn talsmanns samgöngueftirlits Quebec-fylkis höfðu ábendingar borist um að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera á brúnni um klukkutíma áður en atvikið varð, segir í frétt TVA-sjónvarpsstöðvarinnar af slysinu. Fram kom að brúin virtist hafa lækkað um nokkra þumlunga.

Eftirlitsmaður var þegar í stað sendur á staðinn og var hann mættur um hálftíma áður en slysið varð, en brúnni var þó ekki lokað.

Brúin var byggð árið 1970 og hefur hingað til staðist öll öryggispróf.

Þetta er í annað sinn á sex árum sem mannskætt slys verður þegar brú á mislægum gatnamótum hrynur í þessum hluta Montréal. Árið 2000 fórst maður þegar átta 70 tonna stólpar brúar í byggingu hrundu ofan á bíl hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×