Erlent

Uppnám vegna Mozartóperu

Upphaf tveggja ára viðræðna Wolfgang Schäuble innanríkisráðherra ásamt Badr Mohammed, leiðtoga arabískra sósíaldemókrata í Þýskalandi.
Upphaf tveggja ára viðræðna Wolfgang Schäuble innanríkisráðherra ásamt Badr Mohammed, leiðtoga arabískra sósíaldemókrata í Þýskalandi.

Ákvörðun Þýsku óperunnar í Berlín um að hætta af öryggisástæðum við fjórar sýningar á óperu eftir Mozart hefur vakið harðar deilur þar í landi. Í einu atriði óperunnar Idomeneo átti að sýna afhöggna hausa þriggja helstu trúarhöfunda mannkyns, þeirra Jesú, Búdda og Múhameðs, ásamt höfði sjávarguðsins Poseidons.

Deilurnar þykja minna á uppþotið sem varð vegna birtinga skopmynda af Múhameð spámanni í danska dagblaðinu Jótlandspóstinum.

Wolfgang Schäuble, innanríkisráðherra Þýskalands, hefur sagt að ákvörðun óperunnar sé „brjáluð“, en á miðvikudag settist hann ásamt fleiri þýskum ráðamönnum á fund með leiðtogum múslima í Þýskalandi til þess að ræða stöðu múslima þar í landi. Fundurinn markar upphaf að tveggja ára viðræðum, þar sem meðal annars verður rætt hvort taka eigi upp kennslu í íslamfræðum við þýska barnaskóla, sambærilega við fræðslu í kristinni trú og gyðingdómi.

„Íslam er mikilvægur partur af Þýskalandi og Evrópu, og verður þess vegna að fallast á siði og gildi sem Evrópa er byggð á,“ sagði Schäuble í nýlegu blaðaviðtali. „Við erum ekki að hefja viðræður þar sem við skiptumst eingöngu á kurteisisorðum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×