Erlent

Ásakanir um spillingu drógu úr fylgi Silva

Með fána Verkamannaflokksins Frá útifundi stuðningsmanna forsetans á Alvoradatorgi í höfuðborginni Brasilíu á sunnudagskvöldið.
Með fána Verkamannaflokksins Frá útifundi stuðningsmanna forsetans á Alvoradatorgi í höfuðborginni Brasilíu á sunnudagskvöldið. MYND/AP

Luiz Inacio Lula da Silva, hinn vinstrisinnaði forseti Brasilíu, náði ekki þeirri yfirburða kosningu nú um helgina, sem flestir höfðu reiknað með fyrirfram. Ásakanir um spillingu virðast hafa ráðið þar úrslitum.

Lula hlaut 48,7 prósent atkvæða í forsetakosningunum, sem haldnar voru á sunnudaginn, og náði þar með ekki þeim ríflega fimmtíu prósentum atkvæða sem þurft hefði til þess að sigra í fyrstu umferð.

Því þarf að efna til annarrar umferðar í lok mánaðarins þar sem Lula etur kappi við helsta mótframbjóðanda sinn, hægri kratann Geraldo Alckmin, fyrrverandi ríkisstjóra í Sao Paolo, sem hlaut 41,6 prósent.

Lula þykir hafa staðið sig vel í efnahagsmálum. Efnahagslíf Brasilíu þykir stöðugt og töluvert hefur dregið úr fátækt. Það voru hins vegar ásakanir á hendur forsetanum um spillingu, sem rétt fyrir kosningar drógu mjög úr fylgi hans.

Mótframbjóðandinn Alckmin gerði lýðum ljóst að hans helsta verkefni í forsetaembættinu, næði hann kjöri, yrði barátta gegn spillingu í stjórn landsins.

Brasilía verður að hafa siðsama og heiðarlega stjórn, sagði hann við fagnandi hóp stuðningsmanna sinna að kvöldi sunnudagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×