Fjórir létust eftir að byssumaður réðst inn í lítinn barnaskóla Amish fólks í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum í gær. Byssumaðurinn svipti sig lífi eftir að hafa skotið þrjár telpur beint í höfuðið. Hann mun hafa verið að hefna atburða sem áttu sér stað fyrir tuttugu árum síðan. Sjö manneskjur lágu jafnframt alvarlega slasaðar á sjúkrahúsi eftir árás mannsins.
Tilkynnt var um atburðinn seint í gærmorgun að staðartíma, eða um klukkan 15 að íslenskum tíma, og flykktust þá lögreglu- og sjúkrabílar á svæðið.
Maðurinn kom ekki úr hópi Amish-fólksins, sem er hópur kristinna bókstafstrúarmanna sem lifir hæglátu lífi í Bandaríkjunum og Kanada og hefur ekki mikil samskipti við umheiminn, notar til dæmis hvorki síma né bíla. Vegna trúar sinnar klæðist það gjarnan dökkum fötum sem minna á ameríska tísku 19. aldar.
Bandaríkjamenn eru harmi slegnir vegna árásarinnar, sem kemur í kjölfar tveggja annarra í skólum í Wisconsin og Colorado í síðustu viku. Á miðvikudag myrti fullorðinn byssumaður sextán ára stúlku í skóla í Colorado, eftir að hafa haldið sex stúlkum í haldi um tíma og kynferðislega misnotað þær áður. Tveimur dögum síðar myrti fimmtán ára nemandi skólastjóra sinn í Wisconsin.