Körfubolti

Sannfærandi hjá Haukum

Haukastúlkur unnu í gær Powerade-bikarinn í körfuknattleik annað árið í röð þegar þær lögðu lið Grindavíkur að velli 91-73 í Laugardalshöll. Þetta var öruggur sigur hjá Haukum en liðið hafði forystuna frá upphafi til enda leiks.

Grindavíkurstúlkur náðu góðum kafla undir lok fyrri hálfleiks og minnkuðu muninn í sex stig, 46-40, og þannig var staðan í hálfleik. Eftir hlé voru Haukastúlkur áfram með undirtökin og sigur þeirra var aldrei í neinni umtalsverðri hættu.

Bikarinn afhentur Helena Sverrisdóttir og Pálína Gunnlaugsdóttir, fyrirliðar Hauka, taka á móti verðlaununum í leikslok í gær. Fréttablaðið/Daníel

„Það er gott að byrja tímabilið á þessu en óneitanlega furðuleg tilfinning að fá bikar svona snemma. Það er samt alltaf gaman að vinna titil,“ sagði Ágúst S. Björgvinsson, þjálfari Hauka, eftir leikinn.

Helena Sverrisdóttir var stigahæst í liði Hauka með 33 stig og þá tók hún átta fráköst. Ifeoma Okonkwo, nýr bandarískur leikmaður Hauka, skoraði 24 stig tók fjórtán fráköst, Í liði Grindavíkur var Tamara Bowie atkvæðamest með 33 stig og sautján fráköst en Alma R. Garðarsdóttir skoraði ellefu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×