Ritstjóri tímaritsins Kerrang!, Paul Brannigan, er hæstánægður með nýafstaðna Iceland Airwaves-hátíð. „Það skemmtilegasta við hátíðina var að sjá heimasveitirnar sem maður hefur aldrei heyrt um fara á kostum á litlum stöðum fyrir framan vini sína,“ sagði Brannigan. „Tónlistin er einlæg og raunveruleg, sem er nokkuð sem þú finnur ekki í borgum eins og London, New York eða Los Angeles.“
Nefnir hann til sögunnar hljómsveitir eins og Gavin Portland, We Made God og I Adapt. Einnig gefur hann tónleikum Mínuss, Brain Police, I Adapt og Dr. Spock fjögur K af fimm mögulegum. Segir hann síðastnefndu sveitina vera þjóðargersemi sem sé frumleg og skemmtileg. Vonast hann jafnframt til að sjá einhverjar af sveitunum spila erlendis á næsta ári.
Brannigan segir Dr. Spock hafa lokið Kerrang!-kvöldinu á frábæran hátt. Hrifnastur var hann þó af frammistöðu frönsku rokksveitarinnar Gojira sem fékk fullt hús.