Erlent

Faðir hins myrta segir nýja uppreisn hafa byrjað í gær

Amin Gemayel, fyrrverandi forseti Líbanons, syrgir son sinn, Pierre Gemayel, sem myrtur var á þriðjudaginn.
Amin Gemayel, fyrrverandi forseti Líbanons, syrgir son sinn, Pierre Gemayel, sem myrtur var á þriðjudaginn. MYND/AP

Hundruð þúsunda íbúa Líbanons fylgdu Pierre Gemayel, hinum myrta ráðherra, til grafar í gær. Útförin snerist því upp í fjölmenn mótmæli gegn Sýrlandi og áhrifum Sýrlendinga í landinu.

„Önnur sjálfstæðisuppreisn hófst í dag og stefnir til breytinga. Hún mun ekki nema staðar,“ sagði Amin Gemayel, faðir Pierres, en hann var forseti Líbanons á níunda áratugnum.

Hann talaði til mannfjöldans á bak við skothelt gler og sagðist heita því að „taka fljótlega skref í áttina til þess að barátta ykkar verði ekki til einskis“.

Þeir Gemayel feðgar eru kristinnar trúar og fjölskylda þeirra er með þeim áhrifamestu í röðum kristinna íbúa landsins, sem er skipt upp í marga trúarhópa, bæði kristna og íslamska. Nærri 40 prósent landsmanna eru kristnir, um 35 prósent eru sjía-múslimar, um 20 prósent súnní-múslimar og um fimm prósent eru drúsar.

Hinir kristnu íbúar landsins hafa meiri tengsl við Bandaríkin og Ísrael, en sjía-múslimarnir eru tengdir Sýrlandi sem lengi hefur haft mikil áhrif í landinu.

Eftir morðið á Gemayel á þriðjudaginn óttast margir að borgarastyrjöld brjótist út á ný. Lögreglan telur að um 800 þúsund manns hafi tekið þátt í jarðarförinni og útifundinum þar sem fólkið veifaði fána landsins og myndum af Gemayel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×