Erlent

Hundruð mótmæltu lögregluofbeldi

Lögregla í New York borg í Bandaríkjunum varð manni að bana og særði tvo í skothríð á laugardag. Hundruð manna komu saman á sunnudaginn til þess að mótmæla þessum verknaði lögreglunnar og kröfðust sumir þess að lögreglustjóri borgarinnar segði af sér.

Maðurinn sem lést átti að gifta sig nokkrum tímum síðar. Atvikið átti sér stað fyrir utan nektardansstað þar sem mennirnir höfðu verið að skemmta sér. Þeir voru óvopnaðir, en allir þeldökkir.

„Við getum ekki leyft að þetta haldi áfram," sagði Al Sharpton, prestur og mannréttindafrömuður, sem tók sér stöðu með mótmælendum fyrir utan sjúkrahús í borginni þar sem annar hinna særðu lá.

„Við verðum að átta okkur á því að við vorum öll í þessum bíl," bætti hann við. Borgarstjóri New York borgar, Michael Bloomberg, sagði lögreglumennina hafa haft ástæðu til að halda að mennirnir væru vopnaðir. Fimm lögreglumenn, sem áttu þarna hlut að máli, hafa verið sviptir skotvopnum sínum og sendir í leyfi. Lögregla skaut fimmtíu sinnum á bíl þeirra og hæfði 21 sinni. Annar eftirlifandi mannanna er þungt haldinn á sjúkrahúsi með ellefu skotsár. Engin vopn fundust í bílnum eða á mönnunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×