Erlent

Sakaður um miðlun vændis og ofbeldi

Í miðborg helsinki Hneyksli skekur finnska Hægriflokkinn en grunur leikur á að framkvæmdastjóri flokksins hafi beitt ofbeldi og miðlað vændi.
Í miðborg helsinki Hneyksli skekur finnska Hægriflokkinn en grunur leikur á að framkvæmdastjóri flokksins hafi beitt ofbeldi og miðlað vændi.

Harri Jaskari, framkvæmdastjóri Hægriflokksins í Finnlandi, getur átt margra ára fangelsisdóm yfir höfði sér ef hann verður fundinn sekur um að hafa miðlað vændi, haft í hótunum og beitt konur ofbeldi meðan hann var framkvæmdastjóri flokksins, að sögn finnlandssænska dagblaðsins Hufvudstadsbladet.

Jaskari, sem er í leyfi frá starfi sínu, hefur að sögn finnskra fjölmiðla viðurkennt að fyrrum vinkona hans frá Eistlandi hafi tekið á móti viðskiptavinum heima hjá honum eftir að sambandi þeirra var lokið, en segir að hann hafi ekki vitað um starfsemi hennar. Hægriflokkurinn greiddi leiguna á húsnæðinu. Þá er Jaskari talinn hafa beitt konur ofbeldi á eistneskum krám.

Jaskari-málið er til rannsóknar hjá lögreglu og hefur verið til umræðu í finnska þinginu. Hufvudstadsbladet segir að Jaskari hafi engan pólitískan stuðning, ekki einu sinni þingmanna Hægriflokksins, og að hann geti ekki vænst þess að fá starf sitt aftur. Hanna-Leena Hemming, flokkssystir hans, segir að hann ætti að hafa vit á því að gefa ekki kost á sér fyrir þingkosningarnar.

„Þetta er stór persónulegur harmleikur,“ segir Jyrki Katainen, formaður Hægriflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×