Innlent

Kallaði sjálfur eftir aðstoð

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, slasaðist alvarlega í bílveltu á ellefta tímanum í gærkvöldi og liggur á gjörgæsludeild Landspítala - háskólasjúkrahúss. Hann er ekki í lífshættu.

Steingrímur var á leiðinni suður til Reykjavíkur þegar bíll hans fór út af veginum nærri Skriðuhorni skammt frá Bólstaðarhlíð og valt nokkrum sinnum. Hann slasaðist alvarlega en hélt meðvitund og kallaði eftir aðstoð lögreglunnar þegar klukkuna vantaði fjórtán mínútur í ellefu í gærkvöldi. Lögreglumenn og sjúkrabíll frá Blönduósi og Sauðárkróki héldu af stað honum til hjálpar og þurftu björgunarmenn að beita klippum til að ná Steingrími út úr bílnum. Bíllinn er ónýtur eftir velturnar. Læknir á vettvangi óskaði eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar klukkan 23.18 og brutust flugmenn hennar norður í éljagangi og afar slæmu skyggni. Þeir gátu loks lent á Blönduósi um klukkan eitt í nótt en þangað var Steingrímur fluttur af slysstað með sjúkrabíl. Frá Blönduósi flaug þyrlan með hann til Reykjavíkur þar sem lent var átján mínútur yfir tvö síðustu nótt og liggur hann nú á gjörgæsludeild Landsspítala háskólasjúkrahúss. Steingrímur brotnaði illa í veltunni en er ekki í lífshættu og varð ekki fyrir mænuskaða. Reiknað er með að hann fari af gjörgæslu á aðra deild síðar í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×