Persónur, peningar og félagsleg yfirboð í kosningunum 7. apríl 2006 20:50 Maður þakkar fyrir að kosningabaráttan fyrir borgarstjórnarkosningarnar er ekki byrjuð að ráði. Baráttan fyrir síðustu kosningar var langdregin og leiðinleg. Sveitarstjórnarmál eru vissulega brýn, þau geta haft mikil áhrif á daglegt líf okkar, en að sama skapi er ekki alltaf skemmtilegt að tala um þau. Og svo er líka spurningin: Um hvað er verið að kjósa? Fyrir þessar kosningar sér maður engan áherslumunur milli flokkanna sem má skýra út frá hefðbundnum vinstri-hægri ási. Þetta held ég að eigi við um allt út um allt land. Það væri hægt að skáka frambjóðendum milli lista eða nefna framboðin allt öðrum nöfnum án þess að það breyti í raun neinu. Kannski má segja að þetta sé allt sama miðjumoðið. Allir vilja vera góðir við gamla fólkið, koma fleiri börnum á dagheimili, jafna muninn milli þegnanna. Enginn segist ætla lækka skatta eða einkavæða þjónustuna. Helst eru menn ekki alveg sammála um hvort leikskólinn eigi að vera alveg gjaldfrjáls, skólamáltíðir alveg ókeypis. . Einhvern tíma var þetta kallað félagsleg yfirboð - kosningarnar virðast ætla einkennast talsvert af þeim. Nei, harðar skoðanir eru úr tísku. Menn forðast hugmyndafræði eins og pestina. Þetta speglar auðvtað þá staðreynd að flestir kjósendurnir eru nálægt miðjunni - flokkarnir vilja vera þar sem kjósendurnir eru. Í samfélagi eins og okkar, þar sem fólk á sitt eigið húsnæði en skuldar mikið, er flestum illa við snöggar breytingar. --- --- --- Og þá er náttúrlega spurning um um hvað kosningarnar snúast annað en smá tilfæringar. Hver komi best fyrir, hverjum sé treystandi, hver geri fæst mistök, hver sé fallegastur? Það er altént víst að þetta snýst mikið um persónur. Flokkurinn sem til skamms tíma var á móti persónudýrkun og auglýsingamennsku hefur snúið við blaðinu og auglýsir nú í gríð og erg - einfaldlega af því að reynsla hans af auglýsingabindindinu var ekki góð. Hinir flokkarnir eiga eftir að fara af stað með sína baráttu, en ef miðað er við milljónatugina sem var eytt í auglýsingar fyrir prófkjör, verður sett nýtt met í fjáraustri fyrir kosningarnar. Nema þá að stjórnmálamennirnir komi sér saman um að auka traust á sjálfum sér og lýðræðinu með því að setja skorður við augýsingum fyrir kosningarnar, segi - við ætlum ekki að falla í þessa gryfju. --- --- --- Kosningar geta líka snúist um taktík. Hvaða áhrif hefur til dæmis sundrungin á vinstri vængnum? Það var ekki síst hún sem hélt Sjálfstæðisflokknum við völd í Reykjavík í fyrri tíð. Nú er aftur möguleiki á að flokkurinn nái meirihluta með fylgi sem er langt undir helmingi, til að mynda ef Framsókn og Frjálslyndir eru nálægt því að ná inn manni en tekst það ekki en Vinstri grænir eru við það að ná öðrum manninum. Þannig gætu Sjálfstæðismenn jafnvel unnið borgina með 45 prósenta fylgi. En svo má líka spyrja hvort ekki sé eðlilegt að skipta? Hvort stjórn vinstri flokkanna í Reykjavík yrði nokkuð annað en uppvakningur af R-listanum - þraut honum ekki endanlega erindið í vetur. Til hvers að splæsa honum saman aftur eftir kosningar? En þá er þess náttúrlega að gæta að Sjálfstæðismenn stjórnuðu í hátt í hundrað ár á undan, þetta var borgin þeirra, djásnið í kórónunni. Þeir öðrum fremur bera ábyrgð á því hvernig hún er. --- --- --- Sumir nota sveitarstjórnakosningar til að segja álit sitt á landsmálapólitíkinni - nú virðast kjósendur um allt land vera staðráðnir í að refsa Framsóknarflokknum - eða kjósa barasta alltaf það sama. En svo tekinn sé upp þráður frá því áðan ættu flokkarnir í raun ekki að skipta svo miklu máli í þessu samhengi. Gamalreyndur sveitarstjórnarmaður úti á landi sagði eitt sinn við mig að þetta ylti allt á fólkinu. Það skipti voða litlu máli úr hvaða flokki það er. Í einu plássi getur það verið góður maður úr Sjálfstæðisflokknum sem ber bæjarlífið á herðum sér, en í næsta bæ er Sjálfstæðismaðurinn vonlaus, heldur er það Framsóknarmaðurinn sem er ómetanlegur. Þetta er veruleikinn þegar hugmyndafræði skiptir litlu máli og stefnumálin eru keimlík. Í rauninni ætti fólkið sjálft að geta ráðið miklu meiru - bæir, hverfi og kaupstaðir eru upplagðir fyrir beint lýðræði. Stundum finnst manni reyndar að ástæðan fyrir því að íbúalýðræði er stundað í svo litlum mæli vera sú að menn nenni ekki alveg. Nenni ekki að hlusta á raddir íbúanna, nenni ekki að spyrja þá. Samt vonar maður að það sé verið að kjósa fyrir fólkið - ekki fyrir flokkana. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pistlar Silfur Egils Skoðanir Mest lesið Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Vitsmunaleg vanstilling í boði ungra Sjálfstæðiskvenna Erna Mist Skoðun Kjaftæði Elliði Vignisson Skoðun Falleinkunn fyrrum forseta Vilhjálmur Þorsteinsson,Viktor Orri Valgarðsson Skoðun Fólk eða fífl? Anna Gunndís Guðmundsdóttir Skoðun Verklausi milljónakennarinn Þórunn Sveinbjarnardóttir Skoðun
Maður þakkar fyrir að kosningabaráttan fyrir borgarstjórnarkosningarnar er ekki byrjuð að ráði. Baráttan fyrir síðustu kosningar var langdregin og leiðinleg. Sveitarstjórnarmál eru vissulega brýn, þau geta haft mikil áhrif á daglegt líf okkar, en að sama skapi er ekki alltaf skemmtilegt að tala um þau. Og svo er líka spurningin: Um hvað er verið að kjósa? Fyrir þessar kosningar sér maður engan áherslumunur milli flokkanna sem má skýra út frá hefðbundnum vinstri-hægri ási. Þetta held ég að eigi við um allt út um allt land. Það væri hægt að skáka frambjóðendum milli lista eða nefna framboðin allt öðrum nöfnum án þess að það breyti í raun neinu. Kannski má segja að þetta sé allt sama miðjumoðið. Allir vilja vera góðir við gamla fólkið, koma fleiri börnum á dagheimili, jafna muninn milli þegnanna. Enginn segist ætla lækka skatta eða einkavæða þjónustuna. Helst eru menn ekki alveg sammála um hvort leikskólinn eigi að vera alveg gjaldfrjáls, skólamáltíðir alveg ókeypis. . Einhvern tíma var þetta kallað félagsleg yfirboð - kosningarnar virðast ætla einkennast talsvert af þeim. Nei, harðar skoðanir eru úr tísku. Menn forðast hugmyndafræði eins og pestina. Þetta speglar auðvtað þá staðreynd að flestir kjósendurnir eru nálægt miðjunni - flokkarnir vilja vera þar sem kjósendurnir eru. Í samfélagi eins og okkar, þar sem fólk á sitt eigið húsnæði en skuldar mikið, er flestum illa við snöggar breytingar. --- --- --- Og þá er náttúrlega spurning um um hvað kosningarnar snúast annað en smá tilfæringar. Hver komi best fyrir, hverjum sé treystandi, hver geri fæst mistök, hver sé fallegastur? Það er altént víst að þetta snýst mikið um persónur. Flokkurinn sem til skamms tíma var á móti persónudýrkun og auglýsingamennsku hefur snúið við blaðinu og auglýsir nú í gríð og erg - einfaldlega af því að reynsla hans af auglýsingabindindinu var ekki góð. Hinir flokkarnir eiga eftir að fara af stað með sína baráttu, en ef miðað er við milljónatugina sem var eytt í auglýsingar fyrir prófkjör, verður sett nýtt met í fjáraustri fyrir kosningarnar. Nema þá að stjórnmálamennirnir komi sér saman um að auka traust á sjálfum sér og lýðræðinu með því að setja skorður við augýsingum fyrir kosningarnar, segi - við ætlum ekki að falla í þessa gryfju. --- --- --- Kosningar geta líka snúist um taktík. Hvaða áhrif hefur til dæmis sundrungin á vinstri vængnum? Það var ekki síst hún sem hélt Sjálfstæðisflokknum við völd í Reykjavík í fyrri tíð. Nú er aftur möguleiki á að flokkurinn nái meirihluta með fylgi sem er langt undir helmingi, til að mynda ef Framsókn og Frjálslyndir eru nálægt því að ná inn manni en tekst það ekki en Vinstri grænir eru við það að ná öðrum manninum. Þannig gætu Sjálfstæðismenn jafnvel unnið borgina með 45 prósenta fylgi. En svo má líka spyrja hvort ekki sé eðlilegt að skipta? Hvort stjórn vinstri flokkanna í Reykjavík yrði nokkuð annað en uppvakningur af R-listanum - þraut honum ekki endanlega erindið í vetur. Til hvers að splæsa honum saman aftur eftir kosningar? En þá er þess náttúrlega að gæta að Sjálfstæðismenn stjórnuðu í hátt í hundrað ár á undan, þetta var borgin þeirra, djásnið í kórónunni. Þeir öðrum fremur bera ábyrgð á því hvernig hún er. --- --- --- Sumir nota sveitarstjórnakosningar til að segja álit sitt á landsmálapólitíkinni - nú virðast kjósendur um allt land vera staðráðnir í að refsa Framsóknarflokknum - eða kjósa barasta alltaf það sama. En svo tekinn sé upp þráður frá því áðan ættu flokkarnir í raun ekki að skipta svo miklu máli í þessu samhengi. Gamalreyndur sveitarstjórnarmaður úti á landi sagði eitt sinn við mig að þetta ylti allt á fólkinu. Það skipti voða litlu máli úr hvaða flokki það er. Í einu plássi getur það verið góður maður úr Sjálfstæðisflokknum sem ber bæjarlífið á herðum sér, en í næsta bæ er Sjálfstæðismaðurinn vonlaus, heldur er það Framsóknarmaðurinn sem er ómetanlegur. Þetta er veruleikinn þegar hugmyndafræði skiptir litlu máli og stefnumálin eru keimlík. Í rauninni ætti fólkið sjálft að geta ráðið miklu meiru - bæir, hverfi og kaupstaðir eru upplagðir fyrir beint lýðræði. Stundum finnst manni reyndar að ástæðan fyrir því að íbúalýðræði er stundað í svo litlum mæli vera sú að menn nenni ekki alveg. Nenni ekki að hlusta á raddir íbúanna, nenni ekki að spyrja þá. Samt vonar maður að það sé verið að kjósa fyrir fólkið - ekki fyrir flokkana.