Erlent

Smyglaði sprengiefni hugsanlega í skóm sínum

MYND/AP

Maður er grunaður um að hafa borið sprengiefni í skóm sínum inn til föstudagsbæna í Buratha-moskunni í Norður-Bagdad í dag. Í það minnsta 11 létust og 25 særðust þegar hann sprengdi sig í loft upp.

Heimildum ber ekki saman hvernig maðurinn smyglaði sprengiefninu fram hjá öryggisvörðum inn í moskuna, lögreglan segir manninn hafa borið sprengiefnið í belti um sig miðjan en ímaminn við moskuna heldur því fram að maðurinn hafi falið efnið í skónum. Hann mun svo hafa sprengt sig í loft upp þegar öryggisverðir nálguðust hann.

Ströng öryggisgæsla hefur verið við Buratha-moskuna frá því að 85 manns létu þar lífið þegar fjórir sprengdu sig í loft upp þann sjöunda apríl. Einnig var gripið til þess ráðs að banna alla bílaumferð um götur Bagdad-borgar í fjóra tíma í kringum föstudagsbænirnar, eftir hótun frá nýjum leiðtoga al-Qaida í Írak um hræðileg hermdarverk á næstu dögum til að hefnda fyrir al-Zarqawi, fyrrverandi leiðtoga al-Qaída í Írak. Sams konar öryggisráðstafanir voru einnig gerðar síðasta föstudag af ótta við hefndaraðgerðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×