Innlent

Vill að lífeyriskjör verði reiknuð upp til launa

MYND/GVA

Formaður VR vill að lífeyriskjör æðstu embættismanna verði með sambærilegum hætti og almennra launþega en að núverandi lífeyriskjör þeirra verði reiknuð upp til launa. Hann skorar á stjórnvöld að lýsa yfir vilja til breytinga á kerfinu.

Eins og kunnugt er standa yfir viðræður milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar um endurskoðun kjarasamninga. Meðal þess sem Alþýðusamband Íslands hefur lagt áherslu á í viðræðunum er að breytingar verði á eftirlaunum æðstu embættismanna, þar á meðal þingmanna og embættismanna. Eftirlaunaréttur þeirra er mun rýmri en hins almenna launþega vegna eftirlaunalaga sem samþykkt voru árið 2003.

Stjórnvöld hafa hingað til ekki tekið vel í hugmyndirnar og Gunnar Páll Pálsson, formaðurr VR, leggur því fram tillögu til lausnar málinu. Hann leggur til að þeir embættismenn sem nú sitji geti valið milli eldra kerfis og nýs kerfis þar sem lífeyrisréttindi séu reiknuð upp til ígildi launa. Nýir embættismenn gangi hins vegar sjálfkrafa inn í nýja kerfið.

Samtök atvinnulífsins hafa reiknað út hver umframlífeyriskjör ráðherra og þingmanna eru miðað hinn almenna lífeyrisþega. Þar er miðað við þingmann og ráðherra sem hafa áunnið sér hámarkseftirlaunarétt, þingmaðurinn eftir 23 ár þingi og ráðherra sem hefur setið 12 ár á stóli.

Útreikningar SA sýna að umframlífeyriskjör þingmanna eru ígildi 28 prósenta hærri mánaðarlauna og ráðherra 70 prósent hærri mánaðarlauna. Þingfararkaup er nú 471.427 krónur og yrði með þessari 28 prósenta hækkun 603.426 krónur. Almenn ráðherralaun eru hins vegar 846.049 en með 70 prósenta launahækkun yrðu þau 1.438.283 krónur.

Gunnar Páll skorar á stjórnvöld að gefa út yfirlýsingu í tengslum við endurskoðun kjarasamninga um að þau muni ganga í málið og endurskoða lífeyrisréttindin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×