Erlent

3 bandarískir hermenn ákærðir fyrir morð

Bandarískir hermenn í Írak.
Bandarískir hermenn í Írak. MYND/AP

Þrír bandarískir hermenn hafa verið ákærðir fyrir morð á þremur Írökum sem voru í haldi hermanna vegna aðgerða hersveitar í síðasta mánuði. Hermennirnir eru einnig ákærðir fyrir að hafa reynt að koma í veg fyrir að rannsókn færi fram.

Bandarískir hermenn í Írak hafa síðustu vikur og mánuði verið harðlega gagnrýndir fyrir framkomu sína við óbreytta borgura. Þeir hafa einnig verið sakaðir um morð og pyntingar. Þær ásakanir hafa orðið kveikjan að rannsóknum á ákveðnum tilvikum. Þar á meðal er rannsókn á dauða tuttugu og fjögurra óvopnaðara óbreyttra borgara í bænum Haditha á síðasta ári en bandarískir landgönguliðar eru sagðir bera ábyrgð á dauða fólksins.

Hermennirnir þrír sem ákærðir voru í dag er gefið að sök að hafa myrt þrjá Íraka í hernaðaraðgerðum í Suður-Írak 9. maí síðastliðinn. Þeir eru ákærðir fyrir morð, morðtilræði, samsæri og að hindra réttvísina. Stjórnandi hersveitarinnar fyrirskipaði þegar rannsókn á atburðunum. Þegar mun hafa vaknað grunur um að ekki væri allt með felldu. Málið var síðan rannsakað sem glæpur frá og með miðjum maí. Hermennirnir þrír eru í haldi þar til kemur að því að dómur tekur mál þeirra fyrir og leggur mat á hvort næg gögn liggi fyrir sem styðji það að mennirnir verði dregnir fyrir herrétt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×