Erlent

Ítalskur saksóknari kærir bandarískan hermann

Ítalskur saksóknari hefur að sögn þarlendra fjölmiðla ákveðið að ákæra bandarískan hermann fyrir að hafa myrt ítalskan leyniþjónustumann við varðstöð í Írak í fyrra. Líklegt er að réttað verði í málinu að honum fjarstöddum og hann kærður fyrir morð og tvö morðtilræði.

Leyniþjónustumaðurinn, Nicola Calipari, tryggði lausn ítölsku blaðakonunar Giuliönu Sgrena sem hafði verið rænt í Írak. Þau voru á leið í bíl á flugvöllinn í Bagdad þegar skotið var á þau við varðstöðina. Sgrena og ökumaður særðust. Erminio Amelio, saksóknari, hefur ekki staðfest fréttir ítalskra miðla í dag um að hann ætli að kæra hermanninn. Hann sagði þó í síðustu viku að rannsókn væri lokið og eftir væri að ákveða hvort hermaðurinn, Mario Lozano, yrði kærður.

Lögfræðingur Lozano, sem yfirvöld í Ítalíu hafa skipað honum, segir líklegt að réttað verði yfir skjólstæðing hans að honum fjarstöddum en hann verði kærður fyrir morð og morðtilræði. Bandarísk og ítölsk yfirvöld hafa sent frá sér tvær, ólíkar skýrslur um málið þar sem ekki tókst samkomulag um atburðalýsingu. Bandarísk yfirvöld segja að bifreiðinni hafi verið ekið hratt að varðstöðinni og hermenn óttast að andspyrnumenn væru þar á ferð. Ítölsk yfirvöld segja að bílnum hafi verið ekið á eðlilegum hraða og hermennirnir hafi ekki látið vita af því að þau nálguðust eftirlitsstöð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×