Erlent

Bush vill loka Guantanamo-fangelsinu

George Bush Bandaríkjaforseti vill láta loka fangabúðunum í Guantanamo á Kúbu. Á fundi með leiðtogum Evrópusambandsins í Vín í dag sagði hann að sumir fanganna yrðu sendir aftur til síns heima en réttað yrði yfir öðrum í Bandaríkjunum.

Austurríkismenn fara með formennsku í ráðherraráði Evrópusambandið um þessar mundir og því sótti George Bush Bandaríkjaforseti leiðtoga landsins heim í morgun og settist með þeim á rökstóla. Fyrirfram var búist við að málefni Guantanamo-fangelsisins illræmda í Kúbu yrðu ofarlega á baugu enda hafa Evrópumenn ítrekað skorað á Bandaríkjamenn að loka því. Bandaríkjamenn hafa ekki ljáð máls á því í neinni alvöru, fyrr en nú, því Bush lýsti því yfir að hann vildi láta loka fangelsinu sem fyrst.

460 föngum er nú haldið í Guantanamo-búðunum, flestum án ákæru, en 200 hefur verið sleppt. Bush hefur raunar áður sagst vilja helst loka fangelsinu en orð hans í dag eru sérstaklega athyglisverð fyrir þær sakir að í fyrsta sinn víkur hann að því hvernig útfæra megi lokunina. Að hans mati á að flytja þorra fanganna aftur til heimalanda sinna, en þó ekki alla, því sumir fanganna eru "kaldrifjaðir morðingjar" og yfir þeim á að rétta í bandarískum dómstólum.

Ýmis önnur mál voru einnig til umræðu á fundinum í Vín. Skorað var á Írana að svara tilboði Vesturveldanna um kjarnorkumál sem fyrst og eins voru Norður-Kóreumenn varaðir við að gera tilraunir með langdrægar eldflaugar. Þá var ákveðið að berjast innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar fyrir því að bæta aðgang fátækari þjóða að mörkuðum. Á meðan öllu þessu stóð voru mótmælagöngur haldnar í borginni. Nokkur hundruð námsmenn hrópuðu ókvæðisorð að Bush og brenndu bandaríska fánann en allt fór þó friðsamlega fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×