Erlent

Kjálki græddur á kornabarn

Kínverskir læknar græddu í morgun kjálka á eins árs gamlan dreng sem var bitinn heiftarlega af asna fyrir hálfum mánuði. Þótt enn sé of snemmt að segja til um batahorfurnar virðist aðgerðin hafa heppnast ágætlega.

Li litli Hua, eins árs gamall snáði frá Xian í Shannxi-héraði í Kína, hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu því í byrjun þessa mánaðar þegar hann var í pössun á bóndabýli ömmu sinnar beit asni hann svo illa að kjálkinn rifnaði af. Síðan þá hefur Li ekki getað nærst á neinu nema mjólk. Læknar hafa síðustu daga velt vöngum yfir hvernig helst megi lagfæra andlit drengsins og í gærkvöldi réðust þeir umfangsmikla skurðaðgerð þar sem kjálkabeinið var aftur grætt á hann ásamt skinni og æðum af baki hans. Aðgerðin tók níu klukkustundir og í morgun voru læknarnir að vonum þreyttir, en glaðir.

Of snemmt er hins vegar að gera því skóna að Li geti notað kjálkann að fullu á ný. Enn er hætta á að drep myndist í vöðvum og beinum því bæði er flókið og erfitt að viðhalda blóðlflæðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×