Erlent

Suðurríkjaþingmenn á móti lögum um kosningarétt

Þingmenn úr suðurríkjunum standa gegn frumvarpi um kosningarétt á Bandaríska þinginu. Til stendur að framlengja lögin um kosningarétt frá 1965, en þau renna út á næsta ári. Samstaða var milli repúblikana og demókrata um nýtt frumvarp en tvö atriði í því eru ekki að skapi suðurríkjaþingmannanna.

Annað þessara atriða er ákvæði um að níu ríki í suðurhluta Bandaríkjanna sæti sérstöku eftirliti sökum fyrri brota þeirra gegn borgaralegum réttindum íbúa sinna. Ríkin þurfa þá sérstakt samþykki dómsmálaráðuneytisins til að breyta kosningalögum sínum. Hitt atriðið sem strandar á er ákvæði um að ákveðnum kjördæmum verði gert að koma til móts við þarfir íbúa sinna og bjóða upp á kjörgögn á öðru máli en ensku. Einn þingmanna repúblikana í Iowa-ríki segir að þessi tillaga stuðli enn frekar að tvítyngi og sundri menningarheimum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×