Erlent

Skæruliðarnir setja fram kröfur

Eftir árás palestínskra uppreisnarmanna á ísraelska landamærastöð við Gaza-ströndina í gær hefur enn einu sinni sigið á ógæfuhliðina í samskiptum Ísraela og Palestínumanna. Fjórir féllu í árásinni, þar af tveir skæruliðar, og ísraelskur hermaður, Gilad Shalit, var tekinn í gíslingu. Þetta líta stjórnvöld í Jerúsalem mjög alvarlegum augum enda hefur slíkt ekki gerst síðan 1994. Í morgun voru göngin sem skæruliðarnir notuðu til árásarinnar eyðilögð og í kjölfarið hótaði Ehud Olmert forsætisráðherra hörðum aðgerðum.

Augheyrt var á Olmert að hann telur leiðtoga palestínsku heimastjórnarinnar bera ábyrgð á gíslatökunni enda er einn hópurinn sem stóð fyrir árásinni á landamærastöðinni hernaðararmur Hamas-samtakanna. Oddvitar Hamas segjast hins vegar ekkert vita um gíslatökuna. Nú síðdegis birtist yfirlýsing frá hópunum þremur sem taldir eru halda Shalit þar sem fram kemur að engar upplýsingar verði gefnar um afdrif hans fyrr en palestínskum konum og börnum verður sleppt úr ísraelskum fangelsum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×