Erlent

Hamas viðurkenni Ísraelsríki óbeint

Hamas-samtökin, sem eru í forystu í heimastjórn Palestínumanna, hafa óbeint viðurkennt tilvist Ísraelsríkis. Forystusveit samtakanna hefur samþykkt lausn á deilum Ísraela sem felur í sér stofnun Palestínuríkis við hlið Ísraels.

Þetta eru töluverð tíðindi þar sem stofnskrá Hamas sem er í gildi nú krefst þess að Ísrael verði eytt og útilokar friðarviðræður við stjórnvöld þar. Það voru fangar sem eru í haldi í ísraelskum fangelsum sem unnu að tillögunni sem óbeint felur í sér að Ísraelsríki er viðurkennt.

Spenna í samskiptum Palestínumanna og Ísraela hefur magnast síðustu daga, eða frá því herskáir Palestínumenn rændu ungum, ísraelskum hermanni á sunnudaginn. Auk þess hafa Hamas-liðar og Fatah-samtök Mahmouds Abbas, forseta Palestínumanna, átt í valdabaráttu í heimastjórninni síðan kosið var til þings í janúar og Hamas hafði betur.

Svo virðist því sem sú deila sé sett til hiðar og munu Ismail Haniyeh, forsætirsráðherra heimastjórnarinnar, og Abbas kynna samkomulagið nánar síðar í dag.

Abbas hafði áður lýst því yfir að gengið yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur fanganna ef Hamas-liðar samþykktu hana ekki og var það þeim síðarnefndu þvert í geð því yrði hún samþykkt með þeim hætti væri það alvarleg vantraustsyfirlýsing á stjórnin Hamas-liða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×