Erlent

Skriðdrekar Ísraela halda inn í Gaza

Ísraelar sendu skriðdreka yfir landamærin inn á Gaza ströndina nú síðdegis. Loftárásir á stöðvar Palestínumanna héldu áfram í dag eftir árásir á raforkuver og brýr í nótt. Óttast er að blóðbað kunni að vera í uppsiglingu. Í morgun var rafmagnslaust á stóru svæði og slökkviliðsmenn reyndu að slökkva í brennandi byggingum. Börn léku sér innan um rústirnar. Síðdegis hófust loftárásirnar aftur þegar skotið var á fyrrum landnemabyggð gyðinga á Gaza, sem Ísraelar segja að sé nú notuð sem æfingasvæði Hamas samtakanna. Aðgerðir Ísraela hafa það yfirlýsta markmið að frelsa ísraelskan hermann úr haldi palestínskra byssumanna. Þeir gefa hins vegar ekkert eftir. Faðir hermannsins bað palestínsku byssumennina að þyrma lífi sonar síns. Grímuklæddir palestínskir byssumenn sögust í dag hafa rænt öðrum manni, ísraelskum landnema. Abbas forseti heimastjórnar Palestínumanna segir að með árásunum í nótt hafi Ísraelar framið stríðsglæp. Samkvæmt Genfarsamningunum er bannað að ráðast á borgaraleg mannvirki, eins og rafstöðvar, nema í augljósum hernaðarlegum tilgangi. Talsmaður Bandaríkjaforseta sagði síðdegis að Ísraelar hefðu rétt á að verja sig - en að þeir ættu að gæta þess að skaða ekki óbreytta borgara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×