Erlent

Ekkert lát á árásum Ísraela á Gazaströndina

Ekkert lát er á árásum Ísraela á Gazaströndina en í morgun lögðu þeir innanríkisráðuneyti Palestínu í rúst, svo og skrifstofur Fatah-hreyfingarinnar. Ismail Haniyeh, forsætisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar, segir árásirnar torvelda frelsun ísraelska gíslsins sem er í haldi skæruliða.

Sambúð Ísraela og Palestínumanna virðist hafa náð nýjum lægðum eftir að skæruliðar tengdir Hamas-samtökunum tóku ísraelskan hermann í gíslingu á dögunum. Ísraelsher hóf stórfelldar árásir á Gazaströndina í gær og í morgun tók hann upp þráðinn þar sem frá var horfið.

Palestínska innanríkisráðuneytið í Gazaborg brann til kaldra kola í morgun þegar sprengjur Ísraela höfnuðu á því og skömmu síðar mættu höfuðstöðvar Fatah-hreyfingar Abbas forseta svipuðum örlögum. Ismail Haniyeh, forsætisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar og einn leiðtoga Hamas, ávarpaði þjóð sína í dag í fyrsta sinn frá því að árásarhrinan hófst. Hann sagði augljóst að Ísraelar ætluðu að nota gíslatökumálið sem yfirskin til að steypa Hamas-stjórninni af stóli. Allt væri hins vegar gert til að frelsa hermanninn.

Mubarak Egyptalandsforseti sagði í blaðaviðtali í dag að Hamas hefði fallist á að láta gíslinn lausan með skilyrðum þó. Ekki fylgdi sögunni hver þau voru.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×