Erlent

Harkan eykst fyrir botni Miðjarðarhafs

Eftir að palestínskir skæruliðar tóku ísraelska hermanninn Gilad Shalit í gíslingu fyrir viku hefur ísraelski herinn haldið uppi linnulausum árásum á Gaza. Í nótt var spjótunum beint að Ismail Haniyeh, forsætisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar en þá lögðu herþyrlur skrifstofur hans í Gaza-borg í rúst með flugskeytum. Enginn var í byggingunni þegar árásin var gerð en maður sem átti leið þar hjá særðist nokkuð. Á ríkisstjórnarfundi í morgun varði Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, árásirnar í morgun og sagði að þungi þeirra yrði jafnvel aukinn ef ísraelski gíslinn yrði ekki látinn laus þegar í stað.

Þessum orðum er augljóslega beint til palestínsku heimastjórnarinnar sem Hamas-samtökin veita forystu en Ísraelar telja þau bera beinta ábyrgð á gíslatökunni. Árásin í nótt ber að skoða sem viðvörun til oddvita þeirra. Ismail Haniyeh skoðaði leifararnar af skrifstofu sinni í morgun ásamt Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, og óhætt er að segja að hljóðið í þeim hafi verið dökkt.

Árásir Ísraela hitta vitaskuld saklausa íbúa Gaza-strandarinnar verst fyrir. Rafmagn hefur ítrekað farið af svæðinu vegna sprenginga í orkuverum og því hafa Palestínumenn þurft að framleiða raforku með olíu. Þar sem landamærin að Gaza hafa hins vegar lokast eftir að árásarhrinan hófst hafa aðdrættir hins vegar meira og minna stöðvast og því hafa mannúðarsamtök vaxandi áhyggjur af ástandinu. Síðdegis opnuðu loks ísraelsk stjórnvöld eina landamærastöð svo hægt væri að flytja þangað matvæli og eldsneyti. Verður hún opin næstu daga, en aðeins nokkra klukkutíma í senn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×