Erlent

Bandarískur hermaður ákærður fyrir morð og nauðgun

Steven Green kemur til dómshússins í morgun
Steven Green kemur til dómshússins í morgun MYND/AP

Fyrrverandi hermaður í bandaríska hernum verður á næstu dögum ákærður fyrir að hafa nauðgað konu í Írak og myrt hana og fjölskyldu hennar. Þetta mun hafa gerst í mars síðastliðnum. Maðurinn var leystur frá störfum í hernum þar sem hann var sagður þjást af persónuleikaröskun.

Steven Green er tuttugu og eins árs. Hann kom fyrir herrétt í Charlotte í Noður-Karólínu í dag. Búist er við að hann verði sendur til Kentucky þar sem hann verði ákærður fyrir ódæðin sem hann framdi nálægt bænum Mahmudiya utan við höfuðborgina Bagdad. Green getur átt yfir höfði sér dauðadóm verði hann sakfelldur. Honum eru birtar ákærunar sem óbreyttum borgara en svo gæti farið að hann yrði aftur kvaddur í herinn svo hægt sé að ákæra hann sem hermann.

Í ákærunni kemur fram að Green, ásamt þremur öðrum, hafði farið inn í hús konunnar til að nauðga henni. Áður munu fjórmenningarnir hafa drukkið ótæpilega af áfengi og klætt sig í dökk föt. Þegar í húsið var komið er Green sagður hafi skotið foreldra konunnar og fimm ára stúlku til bana. Þá hafi hann og annar maður nauðgað konunni sem var tuttugu og fimm ára. Green hafi síðan skotið hana í höfuðið.

Mál hermannsins er í framhaldi af rannsókn á öðrum meintum ódæðum bandarískra hermanna í Írak, þar á meðal fjöldamorðunum í bænum Haditha í nóvember síðastliðnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×