Erlent

Ísraelar hyggjast halda áfram aðgerðum á Gaza

MYND/AP

Ísraelsk stjórnvöld hafa hafnað því að láta fimmtán þúsund Palestínumenn lausa úr ísraelskum fangelsum í skiptum fyrir ísraelska hermanninn, Gilad Shalit, sem hefur verið í haldi herskárra Palestínumanna í rúma viku. Ísarelum var gefinn frestur til klukkan þrjú í nótt að íslenskum tíma til að verða við þessum kröfum ellegar yrði gripið til óyndisúrræða. Hryðjuverkamennirnir skilgreindu ekki nánar hvað gert yrði.

Ekki var búist við því að Ísraelar yrðu við kröfunum og það fékkst staðfest í dag þegar Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísarels, sagði að stjórnvöld myndu ekki láta kúga sig. Aðgerðum á Gaza, sem miða að því að tryggja frelsi hermannsins, verður því framhaldið.

Snemma í dag var skotið á svæði á norðurhluta Gaza og hersveitir fóru inn á það svæði í fyrsta sinn síðan aðgerðir hófust á þriðjudagskvöldið fyrir tæpri viku. Loftárásir voru einnig gerðar á skotmörk á svæðinu og greint frá því að tveir herskáir Palestínumenn hefðu fallið. Svo bárust fregnir af því í kvöld að skotið hefði verið á Palestínumenn á Gaza, einn fallið og tveir særst. Palestínumennirnir munu hafa verið að koma fyrir sprengjum þegar ráðist var á þá. Átta herskáir Palestínumenn munu því hafa fallið frá upphafi átaka á þriðjudagskvöldið fyrir tæpri viku.

Vopnaður armur Hamas-samtakanna lýsti því yfir í dag að hann myndi á ný hefja árásir á skotmörk í Ísarel ef aðgerðum Ísarela á Gaza verði ekki hætt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×