Erlent

Kosningar fara vel af stað í Kongó

Atkvæðagreiðsla hófst í dag í fyrstu lýðræðislegu kosningum í Afríkuríkinu Kongó í fjóra áratugi. Miklar vonir eru bundnar við kosningarnar, eftir óstjórn og ofbeldi undanfarinna ára. Langar raðir kjósenda höfðu myndast fyrir utan kjörstaði í Kinshasa í morgun. Lögregla grannskoðaði hvort fólk hefði vopn á sér og hélt uppi strangri öryggisgæslu í grennd við kjörstaði. Þrjátíu og þrír sækjast eftir embætti forseta landsins og níu þúsund frambjóðendur eru um 500 þingsæti. Hinn ungi forseti landsins, Joseph Kabila, er líklegastur til að fara með sigur af hólmi, en auk hans eru í kjöri skæruliðaforingjar og fyrrverandi bandamenn Mobutu Sese Seko, forsetans sem hélt Kongó í viðjum fátæktar í áratugi, en er nú fallinn frá. Í Kongó búa um sextíu milljón manns og af þeim hafa 25 milljónir rétt til að greiða atkvæði í dag. Sameinuðu þjóðirnar sjá um framkvæmd kosninganna, sem kostar um þrjátíu milljarða króna enda eru flugvélar og þyrlur notaðar til að ferja kjörkassa í þessu víðfeðma landi sem er á stærð við vestur-Evrópu. Um 17.600 friðargæsluliðar eru á staðnum, en það eru fjölmennustu hersveitir sem Sameinuðu þjóðirnar hafa í nokkru landi. Frá 1996 - 2002 var harðvítug borgarastyrjöld í Kongó, sem líkja má við heimsstyrjöld því á tímabili tóku níu erlend ríki þátt í átökunum. Enn blossa upp skærur í landinu nær daglega og því er ljóst að ekki munu allir komast í kjörklefan sem hafa áhuga á því. Kongóbúar hafa þó veika von um að dagurinn í dag verði upphafið að nýrri og betri tíð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×