Erlent

Blóðugur dagur í Afganistan

Á vettvangi árásarinnar í bænum Panjwai í Kandahar-héraði.
Á vettvangi árásarinnar í bænum Panjwai í Kandahar-héraði. MYND/AP

Fjöldi óbreyttra borgara og kanadískra hermanna var drepinn í sprengjuárásum í Afganistan í dag. Dagurinn var einn sá blóðugasti í landinu í marga mánuði.

Í sjálfsmorðsárás sem var gerð í bænum Panjwai í Kandahar-héraði í Suður-Afganistan beið tuttugu og einn óbreyttur borgari bana og þrettán særðust. Fjöldi barna var á meðal hinna látnu. Árásarmaðurinn ók bifreið inn í mannþröng á útimarkaði og sprengdi sig svo í loft upp. Lögreglan í Panjwayi telur að talíbanar hafi staðið á bak við ódæðið en enginn hefur lýst yfir ábyrgð á því. Árásin er ein sú blóðugasta síðan Bandaríkjaher og bandamenn þeirra réðust inn í Afganistan árið 2001.

Annars staðar í Kandahar-héraði féllu fjórir kanadískir hermenn í þremur sprengjuárásum í dag. Tíu hermenn særðust að auki. Á meðal hinna látnu var einn herforingi. Þetta er mesta mannfall sem Kanadamenn hafa orðið fyrir á einum degi síðan hernámið í Afganistan hófst fyrir fjórum árum en alls hafa 23 hermenn úr þeirra röðum verið myrtir síðan 2001. Aðeins eru nokkrir dagar síðan NATO tók við stjórn öryggismála af Bandaríkjamönnnum í suðurhluta Afganistans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×