Læknar í Salt Lake City í Bandaríkjunum segja það hafa gengið framar vonum að aðskilja tvíburasysturnar Kendru og Maliyuh Herrin sem voru samvaxnar fyrir neðan mitti. Aðgerðin var framkvæmd í gær og tók sextán klukkutíma. Næstu sjö vikur ráða því hvert framhaldið verður og hvort systurnar nái sér að fullu.
Það voru sex læknar sem framkvæmdu aðgerðina og skiptust á vöktum. Stúlkurnar deildu hluta þarma og lifur en erfiðast var að þær voru bara með eitt nýra. Ekki hefur fyrr verið reynt að skilja að síamstvíbura sem deila nýra. Eftir aðskilnaðinn tóku við aðgerðir á stúlkunum hvorri fyrir sig. Þegar allt var afstaðið höfðu stúlkurnar legið á skurðarborði í einn sólahring og tveimur klukkustundum betur. Faðir stúlknanna var að vonum kampakátur þegar ljóst var að aðgerðin hafði heppnast vel.
Beðið var með að skilja stúlkurnar að þar til ljóst væri að Maliyah gæti gengist undir ígræðslu. Venjan er hins vegar sú að reyna að skilja síamstvíbura að fyrir eins árs aldur. Kendra fékk nýrað sem þær systur höfðu deilt fyrstu fjögur æviárin en Maliyah þarf að vera í nýrnavél næstu þrjá til sex mánuðina, eða þar til hægt verður að græða í hana nýtt nýra úr móður hennar.
Erlent