Erlent

Koizumi ögrar nágrönnunum

Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans, hefur enn einu sinni reitt nágranna sína í Kína og Kóreu til reiði með því að heimsækja helgidóm þar sem japanskar stríðshetjur eru vegsamaðar.

Yasukuni-helgidómurinn sem Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans, fór í í morgun í tilefni þess að 61 ár er liðið frá uppgjöf Japana í síðari heimsstyrjöldinni, er reistur í heiðursskyni við 2,5 milljónir Japana sem fallið hafa í styrjöldum síðustu 140 ára. Þar á meðal eru 14 herforingjar sem dæmdir voru fyrir að bera ábyrgð á skelfilegum grimmdarverkum í stríðum við Kínverja og Kóreumenn á fyrri hluta 20. aldar og því finnst íbúum þessara landa heimsóknin í besta falli fela í sér smekkleysi, í versta falli freklega ögrun. Stjórnvöld í Seúl í Suður-Kóreu og Peking hafa þegar lýst yfir vonbrigðum sínum með þessa ákvörðun og segja með henni sé fórnarlömbum styrjaldanna sýnd mikil óvirðing, nær væri að Japanar bæðust afsökunar á myrkri fortíð sinni. Koizumi segist sjálfur eingöngu hafa verið að minnast þeirra sem létust í stríðunum og vísar því á bug að með heimsókninni sé hann að upphefja stríðsglæpamenn, hvað þá að boða aukinn yfirgang Japans. Þetta er í sjötta sinn sem Koizumi fer að helgidómnum í embættistíð sinni og líklega í það síðasta því hann lætur af embætti í haust. Líklegir eftirmenn hans hafa ekki gefið upp hvort þeir hyggist halda heimsóknunum áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×