Erlent

Friðargæslan í uppnámi

Friðargæslu Sameinuðu þjóðanna í Líbanon hefur verið steypt í óvissu eftir að greint var frá því að Frakkar hygðust einungis senda fámennt lið til landsins en ekki þúsundir manna eins og vonast var til í fyrstu. Líbanonsher var fagnað þegar hann hélt yfir Litani-ána í morgun.

Líbanski herinn er kominn á áður ókunnar slóðir því Suður-Líbanon hefur síðasta aldarfjórðunginn verið á á yfirráðasvæði Hizbollah og þar áður réðu Frelsissamtök Palestínumanna þar ríkjum. Þegar hermennirnir komu í stríðshrjáð þorpin á svæðinu þusti fólk út á götur og bauð þá velkomna með því að kasta yfir þá hrísgrjónum. Vonast er til að 13.000 manna friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna komi sem allra fyrst til Líbanon til að aðstoða þarlenda hermenn og það lið samtakanna sem þegar er í landinu við að gæta þess að vopnahlé Ísraela og Hizbollah haldi. Reiknað hafði verið með því að Frakkar legðu til bróðurpart liðsins en í dag greindi franska blaðið Le Monde frá því að ríkisstjórnin hygðist einungis senda fámennt lið á vettvang. Jacques Chirac Frakklandsforseti lýsti því yfir í dag að 200 manns færu strax til Líbanon en framhaldið væri til skoðunar. Verði þetta raunin er ljóst að mjög mun hægja á brottflutningi Ísraela frá Líbanon og óttast er að við það dragi úr líkum á friði. Hvað sem þessum hræringum líður reyna Líbanar að koma þjóðlífinu í samt lag. Í morgun lenti fyrsta farþegaþotan í Beirút í rúman mánuð og markar það endalok flugbannsins sem Ísraelar höfðu sett á í upphafi átakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×