Erlent

Sýrlendingar hóta að loka landamærum

Svo gæti farið að Sýrlendingar loki landamærum að Líbanon ef friðargæsluliðum Sameinuðu þjóðanna verði komið fyrir í Líbanon, nálægt landamærum Sýrlands. Sýrlandsforseti segir fjölgun í friðargæsluliði þar fjandsamlega Sýrlendingum og brjóta gegn fullveldi Líbanons.

Það var utanríkisráðherra Finnlands, Erkki Tuomioja, sem bar fréttamönnum skilaboð um hugsanlega lokun landamæranna eftir fund sinn með sýrlenskum starfsbróður sínum. Finnar eru nú í forsvari fyrir Evrópusambandið.

Assad Sýrlandsforseti, sagði í gær að hann myndi líta á það sem fjandsamlega aðgerð ef friðargæsluliðum Sameinuðu þjóðanna yrði stillt upp í Líbanon við landamærin að Sýrlandi. Í viðtali við sjónvarpsstöð í Dubai sagði hann það valda stirðum samskiptum milli landanna. Assad fór þó ekki nánar út í hvað stæði að baki orða sinna.

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, segir Ísraela ekki hafa uppi áform um að aflétta að fullu hafn- og flugbanni á Líbanon þar til alþjóðlegt friðargæslulið verði komið að landamærunum að Sýrlandi og á flugvöllinn í Beirút.

Tuomioja sagði í morgun að hann vonaðist til þess að hægt yrði að senda fleiri friðargæsluliða til Líbanons innan viku. Hann er á ferð um Frakkland og Þýskaland til að ræða við ráðamenn þar um hve margir friðargæsluliðar komið þaðan. Frakkar ætla að gefa upp síðar í dag hvort þeir fjöldi í tvö hundruð manna liði sínu sem þegar er komið til Líbanons.

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna koma til fundar með Kofi Annan, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, í Brussel í Belgíu á morgun. Þá mun Annan leggja áherslu á hve miklu skipti að koma gæsluliði til Líbanon hið fyrsta. Einnig mun hann koma því til skila að það sé ekki ætlunin að láta gæslulið afvopna Hizbollah-skæruliða eitt og sér eða gegn vilja Líbana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×