Erlent

Engan Íslending sakaði í sprengjuárásum í Tyrklandi

Á þriðja tug manna særðust í fjórum sprengjutilræðum í Tyrklandi í gær. Ein sprengjan sprakk í Istanbúl en hinar þrjár á Marmaris, þar af ein um tvö hundruð metra frá einu helsta Íslendingahóteli þar. Um þrjú hundruð Íslendingar eru þar á um fimmtán hótelum. Enginn týndi lífi en nokkrir særðust.

Það var snemma í gærkvöldi sem fjarstýrð sprengja sprakk nálægt skrifstofu ríkisstjóra í Istanbúl. Sex særðust í sprengjuárásinni en enginn hefur lýst henni á hendur sér en grunur leikur á að skæruliðar Kúrda standi að baki árásinni. Þeir hafa barist fyrir sjálfsstjórn í suð-austur hluta Tyrklands síðan árið 1984 en Kúrdar eru þar í meirihluta. Rúmlega þrjátíu og sjö þúsund manns hafa fallið í þeim átökum síðan þau hófust.

Það var svo um klukkan níu í gærkvöldi að íslenskum tíma, sem fyrsta sprengjan af þremur sprakk á erilsömu stærti um tvö hundruð metra frá Fidan-hótelinu sem er einn vinsælasti gististaður Íslendinga á þessum ört vaxandi ferðamannastað.

Atli Már Gylfason var staddur á hótelinu þegar fyrsta sprengjan sprakk og þaut út á svalir og sá þá að lítill strætisvagn hafði sprungið.

Í fyrstu var sagt að gassprenging hefði orðið en þegar hinar sprengjurnar tvær höfðusprungið var þá greint frá því að um sprengjuárás hefði verið að ræða. Enginn hefur enn sem komið er lýst sprengingunum á hendur sér. Talið er að tuttugu og einn hafi slasast, tíu breskir ferðamenn og ellefu Tyrkir. Engan Íslending sakaði í sprengingunum en Atli Már segir um þrjú hundruð Íslendinga á Marmaris og í nærliggjandi bæ á um fimmtán hótelum.

Atli Már segir Íslendingum á Marmaris brugðið. Þeir séu vanir að sjá eitthvað þessu líkt í sjónvarpi en eigi ekki von á að vera svona nálægt voðaverki sem þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×