Erlent

Búið að tryggja samninga um fangaskipti í Suður-Líbanon

Hassan Nasrallah, leiðtogi Hisbollah
Hassan Nasrallah, leiðtogi Hisbollah MYND/AP

Leiðtogi Hisbollah, Hassan Nasrallah, sagði í gær að hann sæi eftir að hafa fyrirskipað mannrán tveggja ísraelskra hermanna í júlí síðastliðnum sem varð kveikjan að átökunum í Suður-Líbanon. Hann segir búið að koma því svo fyrir að hægt verði að semja um fangaskipti og lausn hermannanna.

Viðtal við Nasrallah var birt í líbönsku sjónvarpi í gær. Þar segir hann að honum hefði ekki dottið í huga að fyrirskipa mannránin ef honum hefði óraf fyrir því hverjar afleiðingarnar yrðu. Hann hefði ekki séð fyrir að til slíkra átaka myndi koma.

Það var tólfta júlí síðastliðinn sem Hizbollah-skæruliðar felldu þrjá ísraelska hermenn og tóku tvo í gíslingu þegar þeir réðust inn í Ísrael frá Líbanon. Til blóðugra átaka og loftárása kom sem lauk fjórtánda ágúst síðastliðinn og höfðu árásir þá staðið í þrjátíu og fjóra daga.

Nasrallah sagði búið að koma á sambandi milli Ísraela og Hizbollah-skæruliða þannig að hægt verði að semja um fangaskipti og lausn hermannanna. Hann segir sendifulltrúa frá Ítalíu og Sameinuðu þjóðunum hafa komið að þeim undirbúningi. Nabih Berri, líbanski þingforsetinn, mun sýra samningaviðræðum.

Málið verður rætt við Kofi Annan, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, en hann er væntanlegur til Beirút í dag. Nasrallah sagði að reynt hefði verið að koma á fundi milli hans og Annans en ólíklegt væri að honum yrði af öryggisástæðum.

Nasrallah fór í felur á fyrsta degi átakana og ekki er vitað hvar hann heldur til nú. Hann segist sannfærður um að Ísraelar myndu ekki hika við að myrða hann ef þeir vissu hvar hann væri í felum.

Nasrallah sagði í viðtalinu í gær að hann væri sannfærður um að ekki kæmi til frekari átaka milli Hizbollah-liða og Ísraela.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×