Erlent

Barcelona ber merki á treyjunni í fyrsta sinn fyrir UNICEF

Eiður Smári Guðjohsen á æfingu með Barcelona.
Eiður Smári Guðjohsen á æfingu með Barcelona. MYND/Ole Nielsen
Fótboltafélagið Barcelona, sem Eiður Smári Guðjohnsen leikur með, og UNICEF kynntu í dag samstarf um að bæta líf barna í þróunarlöndunum sem meðal annars felur í sér að í fyrsta skipti í 107 ára sögu Barcelona skartar félagið merki á treyjum sínum, en það er merki UNICEF.

Fram kemur í tilkynningu frá UNICEF á Íslandi, að þau fyrstu sem munu njóta góðs af samstarfinu eru börn sem hafa orðið fórnarlömb HIV og alnæmis í Svasílandi. Auk þess að merkja treyjurnar með UNICEF-merkinu mun fótboltafélagið veita a.m.k. 1,5 milljónir evra, tæpar 134 milljónir króna, á ári næstu fimm árin til verkefna UNICEF um allan heim.

Fjárstuðningnum verður fyrst varið til HIV-verkefna í Svasílandi sem miðar að því að koma í veg fyrir smit milli móður og barns, veita lyf og heilsugæslu til HIV smitaðra, byggja upp forvarnarstarf til að koma í veg fyrir smit meðal ungmenna og veita börnum, sem hafa orðið munaðarlaus vegna HIV/alnæmis, umönnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×